Tímaþjófurinn í nýrri kilju!

Fréttir

Tímaþjófurinn í nýrri kilju!

Bjartur bókaútgáfa hefur endurútgefið í kilju skáldsöguna Tímaþjófinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Tímaþjófurinn segir frá Öldu Ivarsen, gáfaðri og glæsilegri konu, tungumálakennara við Menntaskólann í Reykjavík. Hún er af góðum ættum og býr einhleyp við ágætan efnahag. Líf hennar virðist í traustum skorðum þar til ástir takast með henni og samkennara hennar. Sambandið umturnar lífi hennar og verður að lokum sá tímaþjófur sem ekkert fær við ráðið.

Fáar skáldsögur hafa í seinni tíð orðið vinsælli og vakið meira umtal en Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Allt frá því bókin kom fyrst út, árið 1986, hefur þessi frumlega ástarsaga heillað lesendur víða um heim. Sagan og efnistökin hafa líka skapað henni ótvíræða sérstöðu í íslenskri skáldsagnagerð; stíllinn auðugur og ísmeygilegur, fyndni og sársauki vega hér salt af fágætu jafnvægi, og írónían er köld og hárbeitt.

Þessari útgáfu fylgir eftirmáli eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur, bókmenntafræðing.

Mynd á kápu er úr uppsetningu Þjóðleikhússins á Tímaþjófinum, sem nú er leikin, og hefur fengið afbragðs góða dóma.

„Tímaþjófurinn eftir Steinunni Sigurðardóttur er sennilega besta ástarsaga seinni tíma þegar við miðum við íslenskar bókmenntir.“ Kolbrún Bergþórsdóttir, Fréttatíminn

„Alda verður ástinni og draumnum um ástina að bráð: Steinunn lýsir upplausnarferlinu meistaralega og fellir það í sérkennilega hrífandi form.“ Der Spiegel

„Meistaraverk”. Les Inrockuptibles

„Einstök bók. Einstakur höfundur.” Le Monde
„(Textinn) gerir hins vegar uppreisn með flæði sínu og grótesku, írónísku sjónarhorni og margslungnu myndmáli, þar sem svo til hvert atriði frásagnarinnar fær táknræna og óræða vídd.” Helga Kress, TMM


Eldri fréttir Nýrri fréttir