Eva Björg hlýtur Blóðdropann í ár!

Eva Björg hlýtur Blóðdropann í ár!

Heim fyrir myrkur eftir Evu Björgu Ægisdóttur hlýtur Blóðdropann – Íslensku glæpasagnaverðlaunin í ár. Í umsögn dómnefndar sagði: „Heim fyrir myrkur er grípandi sálfræðitryllir sem erfitt er að leggja frá sér. Andrúmsloft óhugnaðar og dulúðar er listilega byggt upp og grunsemdum og efa sáð jöfnum höndum í huga lesanda. Sögusviðið er lifandi og vel er unnið úr sögulegum atburðum í bakgrunni frásagnarinnar. Þessi samfélagslegi vinkill, sem snertir á sögu vistheimila á Íslandi, er fléttaður við fjölskyldudrama og hversdagslíf ungs fólks í borgfirsku dreifbýli upp úr miðri síðustu öld og úr verður sannfærandi og afar spennandi frásögn með fjölbreyttu og breysku persónugalleríi. Frásagnaraðferðin er áhugaverð og ísmeygilega unnið með fyrstu persónu sjónarhorn söguhetju sem berst við að ráða í atburði, drauma og flókinn veruleika í nútíð og fortíð um leið og lesandinn berst við hrollinn sem læðist að honum og grípur hann sífellt fastari tökum.“

Við óskum Evu Björgu innilega til hamingju með verðlaunin!


Eldri fréttir Nýrri fréttir