Frestur til að skila inn handritum í samkeppnina um glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn 2024 er til 1. mars næstkomandi. Bókin kemur síðan út hjá Veröld snemma hausts, samkvæmt rammasamningi Félags íslenskra bókaútgefenda og Rithöfundasambands Íslands. Verðlaunin nema 500.000 krónum.
Eva Björg Ægisdóttir hlaut fyrst allra Svartfuglinn fyrir Marrið í stiganum en bækur hennar koma nú út um víða veröld við frábærar undirtektir og kalla erlendir gagnrýnendur hana næstu stórstjörnu norrænu glæpasögunnar. Katrín Júlíusdóttir fyrrverandi ráðherra og alþingismaður hlaut Svartfuglinn árið 2020 fyrir Sykur sem kom nýverið út í Bretlandi. Árið 2023 komu verðlaunin í hlut Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir Blóðmjólk en Sigurjón Sighvatsson hefur nú þegar tryggt sér kvikmyndaréttinn á sögunni. Þá hafa Eiríkur P. Jörundsson og Unnur Lilja Aradóttir hlotið verðlaunin.
Samkeppnin um Svartfuglinn er ætluð höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpasögu. Höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til verðlaunanna í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld. Handritum skal skilað í þremur eintökum til Veraldar í Vesturvör 30B í Kópavogi undir dulnefndi en rétt nafn höfundar fylgi með í lokuðu umslagi.
Þriggja manna dómnefnd velur verðlaunahandritið.