Svartfuglinn ekki veittur í ár – hefur verið afhentur í síðasta sinn

Svartfuglinn ekki veittur í ár – hefur verið afhentur í síðasta sinn

Glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn, sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til í samvinnu við bókaforlagið Veröld árið 2017, verða ekki veitt í ár. Markmið verðlaunanna var að efla íslensku glæpasöguna með því að laða fram nýja höfunda og veita þeim brautargengi, bæði heima og erlendis. Ár hvert var efnt til samkeppni um þau og var eina skilyrðið að höfundurinn hefði ekki sent frá sér glæpasögu áður. Verðlaunin hafa leitt fram hóp af nýjum krimmahöfundum. Meðal annars hafa tvær af verðlaunabókunum nú þegar komið út erlendis og þar af hefur fyrsta verðlaunabókin, Marrið í stiganum eftir Evu Björgu Ægisdóttur, komið út á um tuttugu tungumálum og hlotið virt, alþjóðleg verðlaun. 

Í ár barst vel á annan tug handrita í samkeppnina og voru þau mjög ólík að gerð, innihaldi og stíl sem sýnir að íslensk glæpasagnaflóra er afar fjölbreytt. Að mati dómnefndar voru nokkur handritanna mjög álitleg en herslumuninn vantaði til að þau gætu hlotið verðlaunin.

Yrsa og Ragnar hafa ákveðið í samráði við Veröld að nú sé komið að leiðarlokum og rétti tíminn til að leggja niður verðlaunin. 

 

 


Eldri fréttir