Þrúgandi andrúmsloft

Fréttir

Þrúgandi andrúmsloft

Í dag kemur út hjá Veröld glæpasagan Mistur eftir Ragnar Jónasson. Stórhríð geisar uppi á heiðum á Austurlandi fyrir jólin 1987 þar sem hjón búa á einangruðum bóndabæ. Ókunnugur maður ber óvænt að dyrum á Þorláksmessu og segist hafa villst í fárviðrinu. Konan á erfitt með að trúa frásögn mannsins og eftir því sem hátíðin nálgast verður andrúmsloftið á þessum afskekkta bæ meira þrúgandi, símasamband rofnar, rafmagnið fer og ekki munu allir lifa heimsóknina af.

Lögreglukonan Hulda Hermannsdóttir þarf að kljást við flókið og erfitt mál skömmu eftir að hafa sjálf lent í fjölskylduharmleik sem skilur eftir sár sem aldrei gróa.

Ragnar Jónasson sýnir hér og sannar að hann er í hópi fremstu spennusagnarithöfunda Norðurlanda en útgáfuréttur á bókum hans hefur verið seldur til fjölda landa. Bækurnar hafa hlotið frábæra dóma og víða setið í efstu sætum metsölulista. Unnið er að gerð breskra spennuþátta sem byggjast á bókum Ragnars.

„Bækur Ragnars Jónassonar verðskulda að standa við hliðina á verkum Yrsu Sigurðardóttur og Arnaldar Indriðasonar sem bestu íslensku glæpasögurnar.“  Washington Post

„Drungalegar sögur verða ekki betur sagðar.“ Chicago Tribune

Mistur er 256 blaðsíður að lengd. Eyjólfur Jónsson braut bókina um og Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu. 

 


Eldri fréttir Nýrri fréttir