Út er komin hjá Bjarti skáldsagan HNOTSKURN eftir Ian McEwan. Trudy hefur svikið John, eiginmann sinn. Hún býr enn í niðurníddu en verðmætu húsi hans í London. Þó ekki með honum heldur bróður hans Claude, smásálarlegum manni og gírugum. Saman gera þau áætlun, en það er vitni að áformum þeirra; hinn forvitni, níu mánaða gamli íbúi í móðurlífi Trudyar.
Hnotskurn er sígild saga um morð og svik, sögð frá einstæðu sjónarhorni, eftir einn helsta sagnameistara vorra tíma.
Ian McEwan er meðal virtustu höfunda samtímans og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín. Mörg þeirra hafa komið út á íslensku, þar á meðal Friðþæging (Atonement) og Brúðkaupsnóttin (On Chesil Beach) en eftir báðum hafa verið gerðar rómaðar kvikmyndir.
Árni Óskarsson þýddi.
„Óvenjulega frumleg og fyndin.“ Sunday Times
„Stórfengleg, frumleg, aðlaðandi … snjallt tilbrigði við Hamlet með ófætt barn í aðalhlutverki. Hattinn ofan fyrir Ian McEwan.“ Boston Globe
„Ian McEwan hefur augljóslega skemmt sér konunglega við að skrifa Hnotskurn. Nú er komið að lesanda að njóta. Þótt sagan sé myrk er hún hrein nautn að lesa.“ The Economist
„Þetta er svo góð bók að mann sundlar.“ Halla Oddný Magnúsdóttir