Ljóðabókinni VELÚR eftir Þórdísi Gísladóttur, verður fagnað í Eymundsson, Skólavörðustíg, klukkan fimm í dag.
Velúr er önnur ljóðabók Þórdísar, en hún fékk bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir fyrstu ljóðabók sína, Leyndarmál annarra. Þórdís er í skemmtilegu viðtali við Fréttablaðið í dag, þar sem fram kemur að hún er Hafnfirðingur í marga ættliði, en hefur búið í Reykjavík frá því hún var tvítug og er – jafnvel! – með hina stóru Reykjavíkurskáldsögu í smíðum!
Þórdís segist segja sögur af venjulegu fólki í bókinni Velúr: „Ég gríp hugmyndir sem eru á sveimi á netinu, eða í loftinu eða þegar einhver segir eitthvað og það mallar í undirmeðvitundinni þangað til það verður að einhverju. Ég er ekki að sækja mikið í þjóðararfinn eða eitthvað þannig.“