Frestur til að skila inn handritum í samkeppnina um glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn 2021 hefur verið lengdur til 1. mars næstkomandi. Bókin kemur síðan út hjá Veröld snemma hausts. Verðlaunin nema 500.000 krónum, auk þess sem höfundi býðst samningur við umboðsmanninn David Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015.
Eva Björg Ægisdóttir hlaut fyrst allra Svartfuglinn fyrir Marrið í stiganum sem nýverið kom út í Bretlandi en þar hefur henni verið afar vel tekið. The Times sagði að „þessi framúrskarandi fyrsta skáldsaga Evu Bjargar [væri] ekki aðeins safarík ráðgáta heldur líka hrollvekjandi lýsing á því hvernig skrímsli verða til“ og gagnrýnandi Financial Times skrifaði: „Eva Björg Ægisdóttir sýnir hér og sannar að hún er jafn mikill snillingur í þessari kuldalegu list og starfsbræður (og -systur) hennar. Elma er ógleymanleg og flókin persóna.“ Nýjasta bók Evu Bjargar, Næturskuggar, sem kom út á dögunum hefur hlotið frábærar viðtökur, meðal annars ⭐️⭐️⭐️⭐️ í Morgunblaðinu.
Katrín Júlíusdóttir fyrrverandi ráðherra og alþingismaður hlaut Svartfuglinn árið 2020 fyrir glæpasöguna Sykur. Bókinni hefur verið afar vel tekið, hún var á meðal söluhæstu bóka októbermánaðar og dómar hafa verið á eina lund. Meðal annars fékk hún ⭐️⭐️⭐️⭐️ í Morgunblaðinu.
Eiríkur P. Jörundsson bar sigur úr býtum í samkepnninni árið 2019 fyrir bók sína Hefndarenglar. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir sagði í þætti sínum Orð um bækur á Rás 1 að Hefndarenglar væri „æsispennandi glæpasaga þar sem söguhetjur glíma við sekt sem gengur í arf kynslóða á milli og við samsæri illra manna sem einskis svífast í að ná sínu fram.“
Samkeppnin um Svartfuglinn er ætluð höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpasögu. Höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til verðlaunanna í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld.
Yrsa og Ragnar skipa dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar.