Stórbrotin sagnalist

Stórbrotin sagnalist

Bjartur bókaútgáfa hefur sent frá sér bókina Ástin Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Bókin er sagnasafn sem kynnt er þannig á kápubaki:

„Ef líf mitt væri hugljúf bíómynd hefði ég sest í lótusstellingu fyrir framan grammófóninn við hvert tækifæri og svifið inn í heim klassískrar tónlistar og háleitra tilfinninga. Inn um dyrnar eitt kvöldið hefði gengið fínlegur og listrænn ungur maður, alger andstæða hnakkatískunnar sem reið röftum á þessum tíma, og fallið í stafi yfir afgreiðslustúlkunni sem var svona mikill listunnandi. Við hefðum orðið ástfangin og skapað okkur innihaldsríkt líf saman. Í staðinn lagðist ég undir sjoppueigandann.“

Í þessum tengdu sögum Guðrúnar Evu eru samskipti fólks á öllum aldri í forgrunni; mæðgna, feðgina, elskenda, vinnufélaga, hyskis og góðborgara. Persónugalleríið er fjölbreytt og litríkt; sálfræðineminn Hildigunnur, Agnar sjoppueigandi, Jósteinn múrari, trúboðarnir Austin og David frá Texas, Jóhanna sem dregst háskalega að Kára, móðurbróður bestu vinkonu sinnar, elskendurnir Sóti og Magga sem verja tíma sínum á knæpunni Dallas ...

Af einstöku næmi og stílgáfu nær Guðrún Eva hér fágætri dýpt í mannlýsingum og bæði persónur og andrúmsloft sagnanna lifa með lesanda lengi á eftir. Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011 fyrir Allt með kossi vekurog síðasta bók hennar, Skegg Raspútíns, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016, og vakti mikla athygli.


Eldri fréttir Nýrri fréttir