Skvísubók fyrir fullorðna – fallega skrifuð og full af hlýju

Fréttir

Skvísubók fyrir fullorðna – fallega skrifuð og full af hlýju
„Frönsk skemmtibók,“ sagði Egill Helgason í Kiljunni í gær um Óskalistann eftir Grégorie Delacourt, nýjustu bókina í neon. „Skvísubók fyrir fullorðna,“ sagði Friðrika Benónýsdóttir, en þau voru sammála um að Óskalistinn, sem er 160 bls, væri góð skemmtilesning sem léti manni líða vel, einsog eina kvölstund eða tvær. 
 
Og hvernig eru skvísubækur fyrir fullorðna? Nú: „Fallega skrifuð,“ sagði Friðrika, „og Guðrún Vilmundar þýðir hana ágætlega. Manni líður bara vel á meðan maður les hana.“ Þorgeir Tryggvason bætti því við að aðalpersónan – okkar 47 ára gamla Jocelyne – lifði í hjónabandi sem hún væri búin að sannfæra sig um að væri hamingjuríkt, „en það afhjúpast smám saman að kannski er þetta bara vopnaður friður,“ sagði Þorgeir. Ástandið er kannski bara svo viðkvæmt að það þoli alls ekki stóra vinninginn í lottó!?
 
„Það er mikil hlýja í bókinni,“ sagði Friðrika, „textinn rennur fallega, það er fullt af skemmtilegum aukapersónum, sæt lítil mannleg saga.“ Þorgeir bætti við að sýn handavinnukonunnar Jocelyne á heiminn væri skemmtileg og það væri bara alveg sjálfsagt að spássera með henni í gegnum þessa stuttu bók! 

Eldri fréttir Nýrri fréttir