Skrímslið hennar Siobhan Dowd

Fréttir

Skrímslið hennar Siobhan Dowd

Siobhan Dowd fæddist í London 1960. Hún bjó í Bretlandi og Bandaríkjunum, skrifaði bækur og ritstýrði. Dowd var ötull aðgerðasinni. Hún var virk í samtökunum PEN og ferðaðist m.a. til Indónesíu og Gvatemala til að kynna sér mannréttindi rithöfunda þar.
Árið 2004 greindist Dowd með brjóstakrabbamein sem síðar lagði hana að velli. Í veikindunum fékk hún hugmyndina að bókinni Skrímslið kemur. Hún náði ekki að ljúka við verkið en þegar hún lést var hún komin með söguþráð, sögupersónur og fyrsta kaflann. Ritstjórinn hennar, Denise Johnstone-Burt hafði áður unnið með Patrick Ness og bað hann um að skrifa söguna eftir forskrift Dowd. Ness bað svo Jim Kay um að myndskreyta söguna.
Öll höfundarlaun Dowd renna í Sjóð Siobhan Dowd sem styrkir ungt fólk til lestrarnáms.

Patrick Ness skrifaði formála að bókinni Skrímslið kemur og birtum við hann hér í þýðingu Ingunnar Snædal.

Nokkur orð frá Patrick Ness.
Ég hitti Siobhan Dowd aldrei, þekki hana eingöngu eins og þið flest – í gegnum frábærar bækur hennar. Fjórar magnaðar unglingabækur; tvær gefnar út á meðan hún lifði, tvær eftir afar ótímabært andlát hennar. Ef þú hefur ekki lesið þær skaltu kippa því í liðinn eins og skot.
Þetta hefði orðið fimmta bókin hennar. Hún var búin að skapa persónurnar, ákveða um hvað sagan ætti að vera og semja byrjunina. Því miður gafst henni ekki tími til að ljúka verkinu.
Þegar ég var beðinn um að gera bók úr efninu sem Siobhan lét eftir sig, hikaði ég í fyrstu. Ég vildi ekki og hefði ekki getað skrifað bók sem líkti eftir rödd hennar. Það hefði ekki verið í hennar þágu, ekki lesandans og, umfram allt, ekki sögunnar. Að mínu viti felast góð skrif ekki í slíkum vinnubrögðum.
Góðar hugmyndir virka þó þannig að af þeim spretta aðrar hugmyndir og fyrr en varði voru hugmyndir Siobhan búnar að kveikja nýjar hjá mér og ég fann fyrir fiðringnum sem alla rithöfunda dreymir um: Lönguninni til að koma orðunum á blað, til að segja sögu.
Mér leið – og líður – eins og mér hafi verið rétt boðkefli, líkt og frámunalega góður höfundur hafi rétt mér söguna sína og sagt: „Drífðu þig. Hlauptu með hana. Gerðu allt vitlaust.“ Það reyndi ég líka að gera. Ég hafði aðeins eitt til viðmiðunar: Að skrifa bók sem ég held að Siobhan hefði orðið ánægð með. Ekkert annað skipti máli.
Nú er kominn tími til að rétta þér keflið. Sögur mega ekki daga uppi hjá rithöfundunum, en þurfa að rata til lesenda. Hér er sagan sem við Siobhan suðum saman. Drífðu þig. Hlauptu með hana.
Gerðu allt vitlaust.

Patrick Ness
London, febrúar 2011


Eldri fréttir Nýrri fréttir