Rýtingur í bak Evu Bjargar!

Rýtingur í bak Evu Bjargar!

Eva Björg Ægisdóttir hlýtur rýting Samtaka breskra glæpasagnahöfunda árið 2021 í flokkinum frumraun ársins („New Blood“) fyrir Marrið í stiganum. Þetta er í fyrsta skipti sem þýdd bók fær verðlaunin. Þessi verðlaun hafa verið veitt frá árinu 1973 og meðal höfunda sem hafa átt frumraun ársins eru Patricia Cornwell (1990), Minette Walters (1992), Gillian Flynn (2007), S.J. Watson (2011) en þær hafa allar orðið heimsfrægar í kjölfarið. Sum árin hefur dómnefnd ákveðið að veita ekki verðlaunin. Arnaldur Indriðason er eini íslenski höfundurinn sem hlotið hefur verðlaun Samtaka breskra glæpasagnahöfunda en hann fékk hinn virta Gullrýting fyrir Grafarþögn árið 2005. VIctoria Cribb þýðir Marrið í stiganum.

Í apríl síðastliðnum var birtur svokallaður langur listi yfir þrettán tilnefndar bækur og var Marrið eina þýdda bókin sem komst þangað inn. Listinn var síðan skorinn niður í aðeins sex bækur í lok maí. Og nú stendur Marrið í stiganum uppi sem sigurvegari. 

Það er skammt stórra högga á milli hjá Evu Björgu Ægisdóttur. Á dögunum var greint frá því að þýska forlagið Kiepenheuer & Witsch hefði tryggt sér réttinn á Marrinu í stiganum en mörg af helstu útgáfufélögum Þjóðverja bitust um bókina á æsispennandi uppboði. Eva Björg er nú stödd á Quais du polar glæpasagnahátíðinni í Lyon í Frakklandi en þangað koma um 60.000 gestir á ári hverju.

Fyrir Marrið í stiganum hlaut Eva Björg Ægisdóttir fyrst allra Svartfuglinn – glæpasagnaverðlaun sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld, árið 2018. Marrið hefur nú þegar verið gefið út á ensku og frönsku og hafa viðtökur verið afar góðar. Gagnrýnandi The Times sagði t.d. að „þessi framúrskarandi fyrsta skáldsaga Evu Bjargar [væri] ekki aðeins safarík ráðgáta heldur líka hrollvekjandi lýsing á því hvernig skrímsli verða til.“ Alls hefur útgáfurétturinn á Marrinu í stiganum nú verið seldur á sjö tungumál en viðræður standa yfir við forlög víða um heim. Eva Björg hefur sent frá þér þrjár glæpasögur á jafn mörgum árum. Stelpur sem ljúga kom út 2019 og Næturskuggar í fyrra. Hún vinnur nú að sinni fjórðu bók sem Veröld gefur út í haust.

 


Eldri fréttir Nýrri fréttir