Bókmenntahátíð í fimm bindum!

Bókmenntahátíð í fimm bindum!

„Smásögur heimsins: Alþjóðleg bókmenntahátíð í fimm bindum“ verður haldin í Norræna húsinu föstudaginn 10. september kl. 16. Um er að ræða uppskeruhátíð eins viðamesta þýðingaverkefnis sem ráðist hefur verið í á vegum íslenskrar bókaútgáfu á þessari öld. Að dagskrá lokinni verða léttar veitingar. Viðburðurinn er haldinn í samvinnu við Bókmenntahátíðina í Reykjavík.

Á árunum 2016 til 2020 gaf Bjartur út úrval tæplega eitt hundrað þýddra smásagna undir titlinum Smásögur heimsins. Var markmiðið að gefa íslenskum lesendum kost á að kynnast fjölbreyttri sagnagerð fremstu höfunda frá Norður Ameríku, Rómönsku Ameríku, Eyjaálfu og Asíu, Afríku og Evrópu frá undanfarinni öld. Ritstjórar voru þau Rúnar Helgi Vignisson, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Jón Karl Helgason en með þeim störfuðu hátt í 50 þýðendur, ásamt fjölda yfirlesara og ráðgjafa. Var kapp lagt á að sem flestar sögur væru þýddar beint úr frummálinu eða þýðingar að minnsta kosti bornar nákvæmlega saman við frumtexta.

Með viðburðinum í Norrænu húsinu er ætlunin að líta um öxl en einnig munu ung og upprennandi skáld og fræðafólk beina athygli að einstökum smásögum. Á stokk stíga fyrst fulltrúar ritstjórnar, þýðenda, forlags og gagnrýnenda; þau Kristín Guðrún Jónsdóttir, Sigrún Eiríksdóttir, Páll Valsson og Einar Falur Ingólfsson. Þá taka fjórir nemendur úr ritlist og almennri bókmenntafræði við keflinu; þau Árni Árnason, Elín Edda Þorsteinsdóttir, Marteinn Knaran Ómarsson og Vilborg Bjarkardóttir. 

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

 


Eldri fréttir Nýrri fréttir