Óvænt metsölubók um allsérstætt ástarsamband

Fréttir

Óvænt metsölubók um allsérstætt ástarsamband

Nýjasta bókin í neon heitir Í leyfisleysi og er eftir sænsku skáldkonuna Lenu Andersson. Þetta er sjötta bók Lenu, sem er fyrrverandi keppnismanneskja á skíðum, en fyrri bækur hennar hafa vakið athygli í þröngum hópi.

Í Leyfisleysi vakti sumpart óvænta athygli í Svíþjóð þegar hún kom út í fyrra og fyrsta prentun seldist upp á örfáum dögum. Bókin fékk síðan Augustverðlaunin, virtustu bókmenntaverðlaun sænskra, og hefur setið á sænskum metsölulistum síðan. Þetta er svolítið skemmtilegt í ljósi þess að höfundurinn segist sjálf almennt forðast metsölubækur því þær sem hún hafi lesið séu næstum undantekningarlaust fremur slakar bókmenntir.

Mikið hefur verið slúðrað um að sagan um samband Esterar og Hugos, sem sögð er í Í leyfisleysi, sé byggð á sambandi höfundarins við frægan kvikmyndagerðarmann, Roy Andersson, en kunnugir segja þau hafa verið í sambandi fyrir einhverjum árum. Hugo á augljóslega mjög margt sammerkt með kvikmyndagerðarmanninum og Ester þykir býsna lík Lenu Andersson. Höfundurinn hefur þó ekki viljað staðfesta þetta.

Um þessar mundir vinnur Lena Andersson að sjálfstæðri framhaldsbók, þar sem Ester, sem lesendur kynnast í Í leyfisleysi, er einnig aðalpersóna.  


Eldri fréttir Nýrri fréttir