Bjartsbækur tilnefndar til nýrra verðlauna

Fréttir

Bjartsbækur tilnefndar til nýrra verðlauna

Alþjóðlega glæpasagnahátíðin Iceland Noir, Bandalag þýðenda og túlka og Hið íslenska glæpafélag standa að nýjum verðlaunum sem veitt verða í fyrsta sinn á Iceland Noir glæpasagnahátíðinni í Norræna húsinu, þann 22. nóvember næstkomandi.

Höfundar og þýðendur eftirtalinna fimm bóka hljóta tilnefningu til Ísnálarinnar – Iceland Noir verðlaunanna 2014, fyrir bestu þýddu glæpasöguna:

  • Að gæta bróður míns (Veljeni vartija) eftir Antti Tuomainen. Sigurður Karlsson þýddi
  • Brynhjarta (Panserhjerte) eftir Jo Nesbø. Bjarni Gunnarsson þýddi
  • Hún er horfin (Gone Girl) eftir Gillian Flynn. Bjarni Jónsson þýddi
  • Manneskja án hunds (Människa utan hund) eftir Håkan Nesser. Ævar Örn Jósepsson þýddi
  • Sannleikurinn um mál Harrys Quebert (La Vérité sur l’affaire Harry Quebert) eftir Joël Dicker. Friðrik Rafnsson þýddi

Í dómnefnd sitja Katrín Jakobsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi menntamálaráðherra, Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður og bókmenntagagnrýnandi, Magnea J. Matthíasdóttir, formaður Bandalags þýðenda og túlka, Quentin Bates rithöfundur og þýðandi og Ragnar Jónasson rithöfundur.

Tvær Bjartsbækur eru meðal tilnefndra: Hún er horfin eftir Gillian Flynn og Sannleikurinn um mál Harrys Quebert eftir Joel Dicker. Hér á eftir fylgja umsagnir dómnefndar um bækurnar:

Hún er horfin (Gone Girl; Gillian Flynn / Bjarni Jónsson): Lipurlega þýdd úrvalsspennusaga; framvindan óhefðbundin og óvænt, sagan hörkuspennandi og hröð, og fléttan eitursnjöll.

Sannleikurinn um mál Harrys Quebert (La Vérité sur l’affaire Harry Quebert; Joël Dicker / Friðrik Rafnsson): Óvenjuleg söguhetja flækist í morðgátu sem kemur stöðugt á óvart og heldur athygli í sjöhundruð blaðsíður; skemmtilega uppbyggð bók í vandaðri þýðingu.

 

Alþjóðlega glæpasagnahátíðin Iceland Noir (www.icelandnoir.com/) verður haldin í annað sinn helgina 20. – 23. nóvember næstkomandi. Á þriðja tug innlendra sem erlendra rithöfunda tekur þátt í hátíðinni, sem er opin öllum áhugamönnum um glæpasögur. Skráning fer fram á vefnum icelandnoir.com, hjá Hinu íslenska glæpafélagi og Borgarbókasafninu.

Tilnefningar til Ísnálarinnar eru tilkynntar á fæðingardegi glæpasagnahöfundarins
Raymonds Chandlers (f. 23. júlí 1888), en hann nýtti sér ísnál sem morðvopn í bók sinni The Little Sister (1949). Bókin kom út á íslensku árið 1990, í þýðingu Þorbergs Þórssonar, og hét þá Litla systir.

 


Eldri fréttir Nýrri fréttir