„Ofurhetjur eldast ekki.“ Fulltrúi Bjarts í Stokkhólmi rapporterar frá blaðamannafundi

Fréttir

„Ofurhetjur eldast ekki.“ Fulltrúi Bjarts í Stokkhólmi rapporterar frá blaðamannafundi

Blaðamannafundur var haldinn í morgun, í höfðustöðvum Norstedts-útgáfunnar í Stokkhólmi, í tilefni af því að fjórða bókin í Millenium-seríunni kemur út á morgun. Fimmtudaginn 27. ágúst kemur bókin út hjá 26 útgefendum um allan heim, í 2.7 milljónum eintaka! Fulltrúi Bjarts var að sjálfsögðu á staðnum: Hann var mættur á fremsta bekk, fyrstur allra! 

 

Frá Kristjáni Sigurjónssyni, útsendara Bjarts í Stokkhólmi:

Það er greinilega víða eftirvænting eftir Millennium framhaldi því á blaðamannafund dagsins var mættur her erlends fjölmiðlafólks, sænska pressan og svo útsendari Bjarts. 

Höfundurinn David Lagercrantz var kynntur til leiks strax í upphafi og sá lætur ekki athyglina slá sig út af laginu. Hann talaði hátt og baðaði út örmum á meðan hann gekk fram og aftur um senuna og horfði í allar myndavélarnar á svæðinu. Sviðsframkoman minnti óneitanlega Mick Jagger og þeir tveir eru heldur ekki svo ólíkir. 

Lagercrantz lýsti hversu heltekinn hann hafi verið af skrifunum og hvernig hann hefði reynt að þróa persónur bókarinnar án þess þó að breyta þeim. Blaðamaður hins ítalska La Repubblica spurði þá hvort Lisbeth Salander hefði elst milli bóka. Lagercrantz sagði fólk ekki þurfa að hafa áhyggjur að því. Lisbeth Salander væri ekki orðin þriggja barna móðir eða gömul kona. „Ofurhetjur eldast ekki. Clark Kent er ennþá blaðamaður en ekki sjötugur karl sem fer í Súperman búning. Það sama við um Salander.” Ítalanum var greinilega létt. 

Næst spurði pólskur blaðamaður hvort í bókinni væru að finna faldar auglýsingar. Lagercrantz og forleggjarinn Eva Gedin settu upp svip og sögðust aldrei hafa heyrt af þess háttar í bókum. „Svoleiðis er bara í bíómyndum”, sagði Lagercrantz. Ekki gafst tími fyrir fleiri spurningar en þessar tvær. Lagercrantz renndi upp buxnaklaufinni (var með hálfopna búð á fundinum), stillti sér upp fyrir ljósmyndara og lét sig hverfa. Það sama gerði Erland Larsson, pabbi Stiegs Larsson, sem sat á fremsta bekk. Vakti það athygli útsendara Bjarts að seðlaveski karlsins stóð hálft upp úr rassvasanum, einsog karla var gjarna siður fyrir áratugum síðan. Það virtist hins vegar ekki vera úttroðið.

 


Eldri fréttir Nýrri fréttir