Okkar maður í Stokkhólmi, Kristján Sigurjónsson, mætti í sínu fínasta pússi á Södra Bar í Södra Teatern í gærkvöldi, þar sem útgáfuveisla fyrir ÞAÐ SEM EKKI DREPUR MANN var haldin. Bókin, sú fjórða í Millenium-seríunni, kom út samtímis í 27 löndum í gær. Það var létt yfir fólki í útgáfuveislunni, enda hafa allra fyrstu dómar sem birst hafa um bókina, þar sem David Lagercrantz skrifar áfram um persónurnar sem Stieg Larsson skapaði, verið afar jákvæðir. Lagercrantz er sagður ná þeim Lisbeth Salander og Mikael Blómkvist fullkomlega.
Menn skáluðu í bjór og faðir Stiegs Larsson heilsaði með virktum þegar fulltrúi Bjarts gekk í salinn, en þeir áttu orðaskipti um íslenska jökla og rithöfunda, á blaðamannafundi sem haldinn var í höll Norstedts-útgáfunnar daginn áður. Á hæla okkar manni var danskur blaðamaður á efri árum sem bankaði hress í bakið á Larsson gamla og sagði: „Ég frétti að þú hefðir farið út og drukkið spritt í gær!“ „Jooo,“ svaraði karl með semingi. „En það er varla fréttnæmt, ég tók taxa snemma heim. Ég er orðinn svo gamall!“
Salurinn var fljótur að fyllast og fyrr en varði var orðið fullt út úr dyrum, þannig að fólk flykktist út á svalir Söder leikhússins, þaðan sem frábært útsýni er yfir borgina, til að fá sér ferskt loft. Þá heyrðist innan af Södra Bar að höfundurinn David Lagercrantz ætlaði að segja nokkur orð, og fólk flykktist aftur inn – en útsendari Bjarts, Larsson-feðgarnir, umboðsmaður þeirra, umsjónarmaður bókmenntaþáttarins Babel og nokkrir aðrir komust ekki aftur inn í salinn, fyrir mannþröng. Pabbi Larsson dæsti og sagði að það væri hvort eð er allt of heitt inni og færi miklu betur um fólk þarna úti í úðanum, og nærstaddir tóku undir.
Að ræðuhöldum loknum tók fólk aftur tal saman og þá hitti Bjartsmaður bróðurson Stiegs, ljúfan náunga sem var forvitinn um Ísland, sem sagði að Stieg hefði verið sinn uppáhaldsfrændi. Stieg hefði einhvern tímann sagt honum að hann ætlaði sér að skrifa skáldsögur um óréttlætið í heiminum – það væri einfaldara, því sem blaðamaður þyrfti hann alltaf að geta heimilda.
Næstur á vegi Bjartsmanns var sænska vísnaskáldið Bo Kasper og urðu þeir mestu mátar. En nú var komi að því að þakka fyrir sig og heilsa upp á höfundinn, David Lagercrantz. Fulltrúi Bjarts var réttur maður á réttum stað, því í því hann bar að garði brást penninn sem Lagercrantz áritaði með, svo hægt var að gefa honum Bjartspenna til að ljúka verkinu. Lagercrantz þakkaði Kristjáni fyrir pennann – og fyrir komuna – og þegar hann komast að því að hann væri frá Íslandi, sagði hann: „Íslandi, já! Ég dvaldi þar tvö sumur þegar ég var strákur, 8, 9 ára. Foreldrar mínir gerðu húsaskipti við íslensk hjón.“
Nú. Spurt er: Við hvern gerðu Lagercrantz-hjónin húsaskipti á Íslandi, undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar?