Óður til Íslands

Óður til Íslands
Út er komin hjá Veröld bókin Hjarta Íslands eftir þá Gunnstein Ólafsson og Pál Stefánsson. Hjarta Íslands er sannkallaður kjörgripur öllum þeim er unna náttúru landsins. Hér birtist hálendið í allri sinni dýrð í glæsilegu samspili fróðleiks og mynda.

Í bókinni sprettur hálendi Íslands fram í aðgengilegum texta og stórbrotnum ljósmyndum. Á síðum hennar fléttast saman jarðfræði, náttúrufræði, þjóðtrú og bókmenntir. Magnaðar ljósmyndir glæða frásögnina enn frekara lífi. Og lesandanum opnast með eftirminnilegum hætti sá dýri arfur sem býr í víðernum landsins.

Fjallað er um allar helstu perlur hálendisins frá Eiríksjökli í vestri til Lónsöræfa í austri; frá Jökulsárgljúfrum í norðri til Eyjafjallajökuls í suðri – svæðið sem gjarnan er kallað hjarta Íslands.

Gunnsteinn Ólafsson er höfundur texta bókarinnar. Hann á að baki áratuga reynslu sem leiðsögumaður um Ísland. Páll Stefánsson tók allar ljósmyndir en hann hefur myndað náttúru landsins í meira en þrjátíu ár.

Hér leggja Gunnsteinn og Páll saman krafta sína í stórvirki sem óhætt er að kalla óð til Íslands.

 

Hjarta Íslands er 190 blaðsíður að lengd í stóru broti. Eyjólfur Jónsson hannaði innsíður og braut bókina um og Jón Ásgeir hannaði kápu.


Eldri fréttir Nýrri fréttir