Kynngimögnuð glæpafantasía!

Kynngimögnuð glæpafantasía!

Út er komin hjá Veröld skáldsagan Nornasveimur eftir Emil Hjörvar Petersen. Á Jónsmessunótt er norn myrt í Trékyllisvík á Ströndum. Fórnarlömb galdrabrenna ganga aftur. Illskeytt og dularfull kynjaskepna ræðst til atlögu. Og válegir andar eru á sveimi. Yfirnáttúrudeild rannsóknarlögreglunnar þarf að takast á við skelfilegt ástandið með aðstoð huldumiðilsins Bergrúnar Búadóttur og Brár, dóttur hennar. Samhliða því að kljást við ókennileg öfl þurfa mæðgurnar að horfast í augu við eigin breyskleika og innri ógnir.

Emil Hjörvar Petersen hefur hlotið einróma lof fyrir bækur sínar og er tvímælalaust eitt helsta fantasíuskáld Íslendinga. Sagafilm vinnur að sjónvarpsþáttaröð eftir bókum hans þar sem þær Bergrún og Brá takast á við erfið og dulmögnuð mál.

Úr dómum um Víghóla og Sólhvörf eftir Emil:

* * * * „Emil tekst listavel að samtvinna sagnaheim ævintýrabókmennta og glæpasagna ... Hröð og spennandi atburðarásin er bæði myndræn og skemmtileg.“

Vilhjálmur A. Kjartansson, Morgunblaðinu.

„Vel skrifuð og spennandi glæpafurðusaga sem vinnur með þjóðsagnaarfinn á áhugaverðan og skapandi hátt.“ 

Brynhildur Björnsdóttir, Fréttablaðinu

  

* * * * „Frábær bók sem tvinnar saman íslenskum þjóðsögum við hversdagsleikann eins og við þekkjum hann.“

Erla Jónsdóttir, Nörd norðursins.is

  

„Æsispennandi saga … einstaklega skemmtileg lesning.“

Snæbjörn Brynjarsson, Stundin.is


Eldri fréttir Nýrri fréttir