Út er komin hjá Veröld glæpasagan Sogið eftir Yrsu Sigurðardóttur. Lýst er eftir átta ára stúlku sem hverfur úr skólanum einn haustdag. Undarlegur spádómur unglings kemur upp úr hylki sem innsiglað var fyrir tíu árum, í kjölfarið taka voveiflegir atburðir að gerast í Reykjavík. Og lögreglan er ráðalaus.
Hér stíga fram á sviðið sömu aðalpersónur og í síðustu bók Yrsu Sigurðardóttur, DNA, bestu íslensku glæpasögunni árið 2014.
Sogið er ellefta glæpasaga Yrsu en Þriðja táknið kom út fyrir nákvæmlega tíu árum. Á þessum tíma hefur hún í tvígang fengið Blóðdropann fyrir bestu íslensku glæpasöguna og í fyrra átti hún bestu norrænu glæpasöguna í Bretlandi.
Sogið er 368 blaðsíður að lengd. Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu, Eyjólfur Jónsson braut um en bókin er prentuð í Finnlandi.