Út er komin hjá Veröld glæpasagan Gatið eftir Yrsu Sigurðardóttur. Umsvifamikill fjárfestir finnst látinn í Gálgahrauni, á hinum forna aftökustað sem blasir við frá Bessastöðum. Barnaverndaryfirvöldum í Reykjavík er tilkynnt um lítinn dreng sem er aleinn og yfirgefinn í ókunnugri íbúð. Og fjórir vinir óttast að leyndarmál þeirra verði afhjúpað. Þessir ólíku þræðir fléttast saman í magnaðri glæpasögu hjá Yrsu Sigurðardóttur.
Við lausn málsins leggja saman krafta sína Huldar lögreglumaður og sálfræðingurinn Freyja sem lesendur þekkja úr fyrri sögum Yrsu; Aflausn, Soginu og DNA en hún var valin besta íslenska glæpasagan 2014 og besta glæpasagan í Danmörku 2016.
Gatið er 350 blaðsíður að lengd. Eyjólfur Jónsson braut bókina um og Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu.