Algjör perla

Fréttir

Algjör perla

Bjartur bókaútgáfa hefur sent frá sér skáldsöguna Perlan – meint skinkuvæðing íslensku kvenþjóðarinnar í kjölfar efnahagshrunsins, eftir Birnu Önnu Björnsdóttur.

Perla Sveinsdóttir var á unglingsárum vinsælasta stelpan í bekknum, sætust og sú sem allir dönsuðu í kringum. En eftir að hafa átt erfitt með að fóta sig á sínum fyrstu fullorðinsárum flyst hún til New York og fer að blogga um hið ljúfa líf sitt þar, mest um djamm og gellugang. Bloggið verður vinsælt, Perla verður umsvifalaust fræg fyrir að vera fræg, og í andstreymi bankahrunsins styttir þjóðin sér stundir við að brosa að fréttum af henni – hún verður táknmynd yfirborðsmennsku og hégómleika.

Þegar nafni Perlu skýtur skyndilega aftur upp haustið 2017 á vitnalista í réttarhöldum vegna stríðsglæpa, taka fjölmiðlar aftur við sér. En þá er sjónarhornið annað og annarra spurninga spurt. Hver er hin raunverulega Perla? Passar ímyndin við veruleikann? Hvernig bregst kona sem þekkti ekkert nema aðdáun umhverfisins við því að vera ýtt til hliðar?

Birna Anna Björnsdóttir, einn höfunda metsölubókarinnar Dís, hefur hér skrifað bráðskemmtilega sögu Perlu Sveinsdóttur, um ímyndir og yfirborð, um heilindi og svik, frægð og fall, og hlutgervingu kvenna í nútímasamfélagi.

Perlan er 215 blaðsíður að lengd, Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu og Eyjólfur Jónsson braut um.


Eldri fréttir Nýrri fréttir