Dásamlegur útgáfulisti Bjarts haustið 2013 fékk verðskuldaða athygli í Morgunblaði dagsins. Enda heldur Bjartur mikið upp á menningarsíður Morgunblaðsins og þá blaðamenn sem þær skrifa. Sérstaklega í dag. Í fréttinni – sem má lesa hér fyrir neðan – er talað um skáldsögur, ljóð og þýðingar, einsog enginn sé morgundagurinn. Svona segir Mogginn frá:
Ættarsaga eftir Jón Kalman væntanleg
• Bjartur sendir frá sér skáldsögur, ljóð og þýðingar
efi@mbl.is
Fiskarnir hafa enga fætur er heiti væntanlegrar skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar sem Bjartur gefur út. Um er að ræða fyrstu skáldsögu höfundar eftir að hann lauk rómuðum „Vestfjarða-þríleik“ sem hófst með bókinni Himnaríki og helvíti. Í tilkynningu frá Bjarti segir að í þessari nýju sögu sé sviðið annars vegar Austfirðir og hins vegar Keflavík „sem kölluð hefur verið svartasti staður landsins“.
Þetta er ættarsaga sem hefst í byrjun tuttugustu aldar og nær fram til okkar daga. Hún teygir sig frá Norðfirði til Keflavíkur og er „saga fólks sem elskar og þjáist, sem leitar og flýr, saga um sársauka og söknuð, ofbeldi og kvótalaust haf. Saga um Kanaskip, Bítlana og Pink Floyd, um bjarta og dimma daga á Norðfirði…“
Heiti nýrrar skáldsögu Eiríks Guðmundssonar er 1983. Fyrsta skáldsaga hans, 39 þrep á leið til glötunar, kom út árið 2004, en 1983 er hans fjórða. Samkvæmt upplýsingum útgefanda segir hér af tólf ára dreng á hjara veraldar sem er á hraði ferð inn í heim hinna fullorðnu. „Á einu ári uppgötvar hann ekki aðeins ástina heldur einnig hverfulleikann, um leið og hann vígist inn í heim orðanna.
Hér er sögð nýstárleg saga úr íslensku þorpi, heimi sem er í senn framandi og kunnuglegur. Þetta er bók um þrá eftir hinu óljósa, leitina að sjálfum sér, draumkennd skip og gamla loftbelgi sem líða um hugarheima ungmenna á hjara veraldar.“
Þriðja skáldsagan sem Bjartur gefur út nú er Hlustaðeftir Jón Óttar Ólafsson. Þessi lögreglusaga er fyrsta skáldsaga höfundar, og fyrsta bók í væntanlegum þríleik. Höfundurinn er doktor í afbrotafræðum og hefur starfað innan lögreglunnar, í fjárfestingabanka og hjá Sérstökum saksóknara.
Í sögunni segir frá því þegar ung kona finnst látin í gömlum grásleppuskúr við Ægisíðu. Margt bendir til þess að hún hafi tekið of stóran skammt eiturlyfja en lögreglumaðurinn í aðalhlutverki er sannfærður um að hún hafi verið myrt.
Fyrsta ljóðabók og þýðingar
Heimsendir fylgir þér alla ævi er fyrsta ljóðabók Evu Rúnar Snorradóttur. Eva Rún er fædd árið 1982, uppalin í Reykjavík og með BA-gráðu í leiklist – fræðum og framkvæmd, frá Listaháskóla Íslands. Undanfarin ár hefur hún starfað með Framandverkaflokknum Kviss búmm bang.
Kolla í Dölum nefnist fjórða ljóðabók Vésteins Lúðvíkssonar en á áttunda áratug liðinnar aldar vöktu skáldsögur hans og smásögur verulega athygli. Eftir langt hlé kvaddi hann sér aftur hljóðs árið 2003 með ljóðabókinni Úr hljóðveri augans.
Þriðja ljóðabókin sem Bjartur gefur nú út er Undir vernd stjarna, ljóðaþýðingar Jóns Kalmans Stefánssonar. Hefur hann þýtt ljóð eftir átján ólík en kunn skáld frá ýmsum löndum. Í tilkynningu segir: „Við þurfum meira af ljóðum… Þetta eru ljóð um kraftinn sem vex í draumum Napóleons, um risavaxna dverglilju haustsins, um gaffal, aftökustaðinn, samviskubitið, sársaukafulla einveru, um heimsveldi drauma og þá staðreynd að ef þú ákveður að fara skaltu vita að hér eru dyrnar, flær bera nafn mitt og liggja að tárum…“
Jón Kalman valdi, þýddi og ritar eftirmála.
Sagnasafn Carvers
Meira af þýðingum; væntanlegt er í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar smásagnasafn bandaríska sagnameistarans Raymonds Carvers (1938-1988) Það sem við tölum um þegar við tölum um ást, frá árinu 1974. Carver er óumdeilt einn af fremstu smásagnahöfundum liðinnar aldar. „Bandaríki Carvers eru full af sársauka og brostnum draumum óbrotins alþýðufólks. Knappur og einfaldur stíllinn er einstakur og engu líkur,“ segir í tilkynningu
Ljóðskáldið Óskar Árni hefur áður þýtt sagnasafnið Sendiferðina eftir Carver (Bjartur, 2004) og var þýðing hans áKaffihúsi tregans eftir Carson McCuller, sem kom út 2010, tilnefnd til Þýðingarverðlaunanna.
Gröfin á fjallinu eftir Hjorth og Rosenfeldt, höfunda sjóvarpsþáttanna Brúarinnar, kemur út í þýðingu Höllu Kjartansdóttur. Er þetta þriðja sagan sem þýdd er um geðstirðan lögreglumann er nefnist Sebastian. Málið sem spinnst eftir fund fjöldagrafar teygir sig inn að kviku sænska réttarríkisins og varpar skugga upp í efstu lög stjórnkerfisins. Fyrri sögur höfundanna, Maðurinn sem var ekki morðingi og Meistarinn, hafa fengið góðar viðtökur.
Ný um Randalín og Munda
Fyrir börnin er von á nýrri bók um Randalín og Munda eftir Þórdísi Gísladóttur; Randalín og Mundi í Leynilundi nefnist bókin. Teikningar eru eftir Þórarin M. Baldursson. Þar segir frá vinunum Randalín og Munda sem bregða sér út fyrir borgina í nokkra daga og komast í kynni við sérkennilegt fólk, forvitnilega fugla og dularfullan nábít sem þau óttast að sé hættulegur.
Þetta er sjálfstætt framhald bókarinnar Randalín og Mundi sem hlaut Fjöruverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana árið 2012.