Mannleg og rómantísk … auk þess að vera bráðskemmtileg!

Fréttir

Mannleg og rómantísk … auk þess að vera bráðskemmtileg!

„Það koma stundum út bækur þar sem lesandinn á mjög erfitt með að skilja við sögupersónurnar í sögulok. Rosie verkefnið eftir Graeme Simsion er ein slíkra bóka.“

Þetta má lesa í Morgunblaði dagsins, en Rosie-verkefnið fær ***½ – þrjár og hálfa stjörnu – í ritdómi þann 14. október.

„Prófessor Don Tillman er áhugaverð skáldsagnapersóna sem væri gaman að heyra meira af,“ skrifar Ingveldur Geirsdóttir.

“ Tillman er háskólaprófessor í erfðafræði og er með asperger þó hann virðist ekki vita það sjálfur. Líf Tillmans er mjög kassalagað, hann skipuleggur hverja einustu mínútu dagsins og bregður ekki út af dagskránni. Einn daginn ákveður hann að finna sér eiginkonu og setur af stað hið svokallaða Eiginkonuverkefni sem hann sér fyrir sér að verði auðleysanlegt. Hann undirbýr mjög nákvæman spurningalista sem konurnar eiga að fylla út og svo notar hann útilokunaraðferðina. Kröfur Tillmans til verðandi eiginkonu eru ekki mannlegar og auðvitað uppfylla mjög fáar skilyrði listans. Eiginkonuverkefnið verður þó til þess að Rosie kemur inn í líf hans en hún uppfyllir líklega ekkert atriði á listanum. Tillman og Rosie fara að vinna að öðru verkefni saman og þá verður Tillman smátt og smátt ljóst að það gerir lífið skemmtilegra að stíga út fyrir kassann stöku sinnum og ástina er ekki hægt að finna eftir spurningalista.

Tillman greinir ekki umhverfi sitt eins og annað fólk og er vonlaus í mannlegum samskiptum, hann les ekki í aðstæður og er óþarflega hreinskilinn. Sagan er í fyrstu persónu svo lesandinn fær að skyggnast vel inn í hugarástand Tillmans og það er stundum erfitt að geta ekki stokkið inn í bókina og sagt honum til í lífsins ólgusjó. Lesandinn hlær að og með Tillman og finnur til með honum því það er ekki alltaf auðvelt að falla ekki inn í það sem telst eðlileg mannleg hegðun.

Rosie verkefnið er mannleg og rómantísk saga auk þess að vera bráðskemmtileg.“

Svo mörg voru þau orð! 


Eldri fréttir Nýrri fréttir