Gröfin á fjallinu fær ferfalt húrrahróp og fagnaðarlæti í Morgunblaði dagsins! Steinþór Guðbjartsson segir einfaldlega að höfundarnir séu á meðal bestu spennusagnahöfunda Norðurlanda og þótt víðar væri leitað. Sagan líður vel, dettur aldrei niður, stíllinn er góður og þýðingin góð, segir Steinþór, og gefur þessari bók fjórar stjörnur. Það gerir ritstjórn Bjarts sömuleiðis … en þetta er nefnilega alger dúndurreyfari, sem gott er að gleyma sér yfir einsog eina helgi.
Dómur Steinþórs úr Morgunblaði dagsins fer hér á eftir. Hann gaf fjórar stjörnur.
Bestu Svíarnir halda áfram á sömu braut
Gröfin á fjallinu ****-
Hjort og Rosenfeldt eru á meðal bestu spennusagnahöfunda Norðurlanda og þótt víðar væri leitað. Fyrri bækur þeirra, Maðurinn sem var ekki morðingi og Meistarinn, slógu í gegn og framhaldssjónvarpsþættirnir Brúin hafa víða vakið athygli. Gröfin á fjallinu heldur áfram þar sem frá var horfið en sviðið er breikkað. Líkfundur upp til fjalla teygir anga sína víða og ekki er aðeins um staðbundið vandamál að ræða heldur alþjóðlegt. Samfara rannsókn morðdeildarinnar er kastljósinu beint að innri vandamálum rannsakenda og þau eru ekki síður athyglisverð.
Þetta er sálfræðitryllir að hætti höfunda. Morð er ekki bara morð heldur býr margt að baki. Vandamál einstaklinga, þjóðarvandamál og vandamál í samskiptum þjóða. Þetta er margslungið fyrirbæri en morðdeildin með Sebastian Bergman í aðalhlutverki er sem fyrr vandanum vaxin.
Sagan líður vel, dettur aldrei niður og þetta er ein af þessum bókum sem lesandi vill ekki sleppa frá sér fyrr en að loknum lestri. Hún er löng, eins og fyrri bækur höfunda, en stuttir kaflar gera lesturinn auðveldari sem og góður stíll og góð þýðing.
Persónusköpunin er frábær. Reyndar má spyrja hvort höfundar séu ekki komnir of langt með lýsinguna á réttarsálfræðingnum Sebastian Bergman, hann hreinlega gerður of sjálfhverfur og fráhrindandi, en persónan er engu að síður sterk og karakterinn hefur mikið að segja í sögunni.
Þegar sömu persónur koma fyrir í bók eftir bók vill stundum fara svo að vitnað er í aðgerðir viðkomandi í fyrri bókum. Það finnst rýni ljóður á góðum bókum, nema um beina ritröð sé að ræða. Hjorth og Rosenfeldt falla í þennan pytt og truflaði það rýni aðeins. Engu að síður er sagan fín og spennan mikil, þótt allir hnútar séu ekki hnýttir. Það bíður næstu bókar.
Steinþór Guðbjartsson