Lygi eftir Yrsu Sigurðardóttur er glæpasaga ársins í Bretlandi, að mati gagnrýnenda Sunday Times. Bókmenntagagnrýnendur blaðsins völdu um helgina bækur ársins í fjórum flokkum: trylli, glæpasögu, sögulega skáldsögu og smásögur. Það er skammt stórra högga á milli hjá Yrsu því að á laugardaginn skrifaði gagnrýnandi The Times um Lygi að þessi grípandi lesning staðfesti að hún væri einn fremsti rithöfundur Norðurlanda. Fyrr í haust birti Sunday TImes dóm um Lygi þar sem sagði meðal annars að bókin væri snilldarverk, Yrsa færi glæsilega með hina þrjár ólíku þræði sögunnar og hún drægi þá saman í ógleymanlegan hápunkt.
Lygi Yrsu best í Bretlandi
Lygi kom út á Íslandi árið 2013. Í henni snýr fjölskylda heim úr íbúðaskiptum en kemst að því að fólkið sem var í húsinu þeirra er horfið. Lögreglukona rekst á áratuga gamla skýrslu sem tekin var af eiginmanni hennar á barnsaldri og telur það mál hugsanlega skýra tilraun hans til að binda enda á líf sitt. Fernt fer í vinnuferð í Þrídrangavita þangað sem aðeins verður sigið niður í þyrlu: kona, tveir smiðir og ljósmyndari. Nóttina á undan dreymdi ljósmyndarann að einungis tvö ættu afturkvæmt. Bretar hafa lofað Lygi að undanförnu. Meðal annars sagð gagnrýnandi Sunday Express í umsögn sinni að lesandinn nyti hinnar þekktu blöndu Yrsu af hrollvekjandi andrúmslofti og kaldhæðni og skrifaði í lokin: „Yrsa er hrein dásemd.“ Þá sagði gagnrýnadi Irish Examiner að Lygi væri „meistaraverk“.