Í haust kemur út hjá bókaforlaginu Veröld sagnabálkur þar sem Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er í aðalhlutverki. Bókin er unnin í nánu samráði við Guðna en hann er löngu orðinn goðsögn í lifanda lífi. Guðni er annálaður sagnamaður, enda njóta fáir viðlíka vinsælda sem tækifærisræðumenn, auk þess sem miklar sögur ganga um hann sjálfan. Þá hafa menn löngum hermt eftir Guðna í flutningi á sögum af honum og hefur það þótt nokkur prófraun á hæfni þeirra að ná Brúnastaðaröddinni með þreföldu erri.
Í bókinni mun Guðni segja sögur af sjálfum sér og öðrum, sögur af forvitnilegu fólki sem hann hefur mætt á lífsleiðinni, óþekktum bændum í Flóanum jafnt sem þjóðkunnum stjórnmálamönnum; þarna verða sögur af kynlegum kvistum og vammlausum embættismönnum, skrautlegar sögur af forystufé á Suðurlandi og dularfullum draumförum, safaríkar sögur af samherjum og andstæðingum í pólitík og þar fram eftir götum. Bókin verður því sannkölluð sagnaveisla.
Líklega eru fáir betur til þess fallnir að segja sögur af Guðna en hann sjálfur. Þó er eins og fyrr segir vitað að meðal þjóðarinnar ganga af honum sögur sem hann annaðhvort man ekki eða hefur kosið að gleyma – nema þær hafi kannski aldrei gerst! Því biðlar Veröld nú til Íslendinga um að senda sögur af Guðna Ágústssyni á netfangið gudnasogur@verold.is. Fullum trúnaði er heitið. Hjá Veröld verður síðan farið yfir sögurnar og þær búnar til prentunar í stíl söguhetjunnar.