Ljóðaþýðingar auðga hugmyndaheim okkar

Fréttir

Ljóðaþýðingar auðga hugmyndaheim okkar

„Fyrir ljóðaunnendur er fengur að þessari bók,“ skrifar Skafti Þ. Halldórsson í Morgunblað dagsins, þar sem hann gefur Undir vernd stjarna, ljóðaþýðingum Jóns Kalman Stefánssonar, fjóra og hálfa stjörnu, eða alveg næstum því algerlega fullt hús! Vandaðar þýðingar og góður smekkur, segir Skafti, sem mælir heilshugar með ljóðabókinni.

Dómurinn í heild sinni er hér fyrir neðan:

 

Ljóð úr ýmsum heimshornum

Undir vernd stjarna * * * * ½

Þýðandi Jón Kalman Stefánsson. Bjartur 2013 – 157 bls.
 
Einn afkastamesti rithöfundur okkar um þessar mundir er Jón Kalman Stefánsson. Nú fyrir jól sendir hann frá sér nýja skáldsögu og svo hef ég verið að blaða í nýrri bók ljóðaþýðinga hans. Þetta eru ljóð úr ýmsum heimshornum eftir átján höfunda. Hann nefnir bókina Undir vernd stjarna. Almennt séð auðga ljóðaþýðingar hugmyndaheim okkar og frjóvga ljóðaakurinn. Skömmu eftir miðja síðustu öld skiptu þær miklu máli í mótun íslensks módernisma. Mörg erlend skáldanöfn urðu mönnum töm og nýjar hugmyndir sóttu inn í íslensk ljóð.

En ljóðaþýðingar skipta ekki síst skáldin og þýðendurna máli og sýn okkar á þau. Það er raunar dálítið merkilegt að Jón Kalman kýs að þýða ljóð eftir svipaðan hóp skálda og atómskáldin og sporgöngumenn þeirra þannig að hann er enginn boðberi nýjunga með þessum ljóðaþýðingum. Yngstu skáldin teljast til ’68-kynslóðarinnar. Innan um eru skorinort ljóð. Helst má nefna verk Langstons Hughes sem jafnan fjallar um réttindi svartra manna. En einnig eru ljóð gyðinga sem brennd eru af helför nasismans og annarri kúgun. Má þar nefna Paul Celan. Flest ljóðin bera þó merki ljóðræns módernisma og eru góð viðbót við drjúgan sjóð íslenskra þýðinga á slíkum ljóðum. Heldur er þungt yfir þessum ljóðum þótt hinn ljóðræni strengur lyfti textanum víðast hvar. Fyrirferðarmestar eru þýðingar á verkum Adams Zagajewskis sem fjallar í senn um sársauka gyðinga í Evrópu og einnig mjög um aðra listamenn, yrkir sig eiginlega í gegnum verk þeirra og fangar anda þeirra á áhrifamikinn hátt.

Almennt má segja um ljóðaþýðingar Jóns að þær eru vandaðar. Hann þýðir víðast úr frummálinu en þegar hann kemur því ekki við leitast hann við að nálgast ljóðin í enskum þýðingum og með hliðsjón af öðrum þýingum á þeim tungumálum sem hann er læs á.

Ljóðasmekkur Jóns hugnast mér og gaman þykir mér að sjá ljóð Charles Bukowskis og fleiri bandarískra skálda komin á bók á íslensku. Fyrir ljóðaunnendur er fengur að þessari bók.

Skafti Þ. Halldórsson, Morgunblaðið, 19. desember


Eldri fréttir Nýrri fréttir