Lars og Lena – verkfræði, ekki rómantík!

Fréttir

Lars og Lena – verkfræði, ekki rómantík!

Hér á þrítugustu mínútu má sjá Lenu Andersson – höfund bókarinnar Í LEYFISLEYSI (í þýðingu Þórdísar Gísladóttur) og gest Bókmenntahátíðar í Reykjavík – sitja á spjalli við hetju Íslendinga – Takk Lars! – í einum vinsælasta sumar-sjónvarpsþættinum í sænska sjónvarpinu, Sommarkväll med Rickard Olsson.

Forsaga málsins var sú að nokkru fyrr var Lena í viðtali fyrir opnum tjöldum á stórri samkomu – Í leyfisleysi hefur selst í yfir hálfri milljón eintaka í Svíþjóð, brillerar í Noregi og Danmörku, gerði það gott á Englandi og fékk sjúklega góðan dóm í Guardian, og er að fara að koma út í Ameríku, svo Lena er svolítið oft í viðtölum – nema hvað, þarna fyrir opnum tjöldum, var hún spurð í lok viðtals: Nú: Og ef þú mættir velja sisvona, og hvern sem er: Hvern langar þig nú mest að hitta, sem þú þekkir ekki enn? Nú. Lena lét hugann reika. Hana langaði ekki að nefna annan rithöfund, eða kollega. Hana langaði til að nefna einhvern sem hún dáðist að … og búmm! „Lars Lagerbäck,“ svaraði hún. 

Nokkrum vikum síðar hringdi svo Rikckard Olsson, þáttastjórnandi: og bauð henni að koma í spjallþáttinn sinn. Og hitta Lars Lagerbäck, en sá hafði þegar þegið að koma og hitta þennan fræga rithöfund, sem dáist svo að lífsskoðunum hans og vinnu með sænska landsliðið: og nú, svo auðvitað það íslenska. Það er núna eftirlætisfótboltalið Lenu í öllum heiminum (nema hvað!) en það sannfærðist hún um þegar hún horfði á Ísland-Tékkland í sumar.

Þau Lars og Lena tala um það í þættinum að þau séu á margan hátt lík: Lena lítur á sig sem eins konar „bókmenntaverkfræðing“ og nálgast skriftirnar alveg ósentimentalt og henni finnst Lars vera þannig týpa líka. Engin rómantík – bara gera það sem þarf að gera með það sem þú hefur í höndunum.

– Það verður að taka það fram að Lena er gömul skíðadrottning, keppti á skíðum um langt árabil og þekkir hinn sanna íþróttaanda.

Lena Andersson les upp úr bók sinni og tekur þátt í umræðum, ásamt þeim Jóni Gnarr og Oddnýju Eiri Ævarsdóttur  í Norræna húsinu klukkan eitt í dag.

LarsOgLena 

 

 

Hér er sjónvarpsþátturinn hans Rickards Olsson – þau Lena og Lars tala saman á þrítugustu mínútu.

 

 


Eldri fréttir Nýrri fréttir