Kiljufréttir

Fréttir

Kiljufréttir
Fjallað var um Bjartsbækur, prentaðar og rafrænar, í Kiljunni á miðvikudag. Fyrst um Svarta sauðinn og aðrar fabúlur eftir Monterroso. Bókin kom út hjá Bjarti síðasta haust og nýverið fékk Kristín Guðrún Jónsdóttir þýðingarverðlaunin fyrir þessa bók. „Einstaklega skemmtileg aflestrar,“ sagði Eiríkur Guðmundsson um Svarta sauðinn. Einstaklega skemmtileg, já, við tökum undir það! „Þolir það að maður lesi hana svolítið vel,“ sagði Eiríkur. „Skyldulesning fyrir alla þá sem ætla að leggja það fyrir sig að skrifa,“ sagði Friðrika Benónýsdóttir, og var ekkert að skafa utan af því!
 
„Ágætlega gert hjá honum,“ sagði Friðrika Benónýsdóttir þegar þau Eiríkur hófu að tala um smásagnasafnið Eldhafið yfir okkur eftir Dag Hjartarson – og velti því svo fyrir sér hvort Egill hefði mögulega getað skrifað bókina – en það leyfum við okkur nú að efast um. Þó Agli sé svo sannarlega margt til lista lagt. Þá velti Egill því fyrir sér hvort það væri svona meiriháttar sparnaðaraðgerð hjá Bjarti að gefa bókina út á rafbók. Þar er Bjartur svo sannarlega að reyna fyrir sér með ný útgáfuform en ekki að spara sér prentkostnað, einsog Eiríkur benti nú réttilega á. Eiríkur var ánægður með smásagnasafnið og fann að þar er Dagur að tala um eldhafið innra með okkur; „tekst að mörgu leyti mjög vel upp,“ sagði Eiríkur og að Dagur talaði um það sem skipti máli. Í lífinu. 

Eldri fréttir Nýrri fréttir