Hugljúf saga um ólíka einamana einstaklinga

Fréttir

Hugljúf saga um ólíka einamana einstaklinga

 

Einar Falur skrifar ljómandi dóm um nýjustu bókina í Neon, Sjtörnur yfir Tókýó, í Morgunblað dagsins. „Þetta er hófstillt og látlaus frásögn úr menningarheimi ólíkum okkar,“ segir Einar Falur,  „saga um siði og formfestu, einsemd í mannmergðinni, um leyndarmálin sem fólk getur búið yfir, en fyrst og fremst er þetta hugljúf saga um ólíka einmana einstaklinga sem ná saman á athyglisverðan hátt og láta hvor öðrum líða vel, meðan það varir.“
 
Þetta finnst okkur hjá Bjarti fallega sagt og vel mælt! 
 
Svona mæltist Einari Fali í Morgunblaði dagsins: 19. júní 2015
 
Í skáldsögu japanska rithöfundarins Hiromi Kawakami, Stjörnur yfir Tókýó, segir frá tæplega fertugri skrifstofukonu í þessari miklu borg, Tsukiko Omachi að nafni. Hún lifir einföldu lífi sem virðist fyrst og fremst snúast um vinnuna; hún býr ein, hefur lítil samskipti við ættingja, hefur átt í skammvinnum ástarsamböndum sem henni virðist standa á sama um en hún lætur eftir sér að sækja bari og þykir gott að drekka bjór og sake.

Omachi segir frá og sagan hefst á því þegar hún hittir á einum barnum virðulegan mann sem kenndi henni japönsku og bókmenntir í menntaskóla og hún kallar einfaldlega Sensei, kennara.

Sensei er kominn á eftirlaun og í ljós kemur að þrátt fyrir talsverðan aldursmun þá eiga þó skrifstofukonan og kennarinn fyrrverandi sitthvað sameiginlegt. Þau taka að mætast yfir forvitnilegum matarréttum og drykk, þar sem kennarinn er fulltrúi gamalla hefða, karlmennsku og skáldskapar, en yngri konan er rótlausari, ekki eins bundin af siðum og regluverki, en sækir í félagsskap Sensei.

Í ljós kemur að hann á sér forvitnilega sögu, þar var til að mynda óvenjuleg eiginkona sem lesandinn fær smám saman að heyra meira um. Þá hittir Omachi gamlan vin, jafnaldra, sem býður upp á aðra leið í lífinu en í fylgd með gamla kennaranum milli bara og veitingastaða. En það er með Sensei sem Omachi heldur síðan út fyrir borgina í ævintýralega sveppatínsluferð og upplifir nýja reynslu, »að vera umkringd örsmáum lifandi verum« (54) og lítur heiminn eftir það öðrum augum, skilur að engar manneskjur eru eins, allir eiga sitt eigið einstaka líf.

Þetta er hófstillt og látlaus frásögn úr menningarheimi ólíkum okkar, saga um siði og formfestu, einsemd í mannmergðinni, um leyndarmálin sem fólk getur búið yfir, en fyrst og fremst er þetta hugljúf saga um ólíka einmana einstaklinga sem ná saman á athyglisverðan hátt og láta hvor öðrum líða vel, meðan það varir.


Eldri fréttir Nýrri fréttir