Góð flétta, hröð framvinda, spennandi persónulýsingar

Fréttir

Góð flétta, hröð framvinda, spennandi persónulýsingar

Steinþór Guðbjartsson skrifar um Skuggadreng í Mogga dagsins: Hrósar glæpasögunni og gefur þrjár og hálfa stjörnu. „Skuggadrengur er ágætis afþreying og fljótlesin. … Samfara framgangi við lausn gátunnar lýsir Carl-Johan Vallgren helstu persónum vel, tengingum og vandamálum sem þær eiga við að stríða.“ Hann segir að fléttan sé góð og hratt sé farið yfir sögu. Dóminn í heild sinni má lesa hér fyrir neðan, en fyrst vitnum við líka í erlenda pressu:

„Ég get sannarlega sagt að þetta er gæðakrimmi.“ – Vestmanlands Läns Tidning

 „Carl-Johan Vallgren er svo góður sagnamaður, hún er stórkostlega skrifuð og laus við klisjur.“ – Dala-Demokraten

„Kemur skemmtilega á óvart, tilkomumikið byrjendaverk.“ – Dagens Nyheter

„Glæsilegt byrjandaverk!“ –  Westdeutsche Rundfunk, Germany

 

Hliðarspor geymd en ekki gleymd – Morgunblaðið 18. júní 2015

Sænskir spennusagnahöfundar hafa úr nógu að moða enda virðast erfiðleikarnir vera á hverju horni í Svíþjóð. Glæpasagan<ská>Skuggadrengur ber þess merki, en í henni beinir höfundur athyglinni fyrst og fremst að vandamálum sem fylgja andstæðum eins og auði og fátækt, mismunandi litarhætti manna, mismunandi trúarbrögðum, fordómum af ýmsu tagi, fíkn, hefnd og síðast en ekki síst togstreitu og baráttu í fjölskyldum.
 
Sagan hefst 1970, þegar Kristófer, sjö ára gamall drengur á ferð með föður sínum og yngri bróður, hverfur skyndilega á lestarstöð í Stokkhólmi. 2012 hverfur Jóel, yngri bróðirinn, og eiginkonan fær Danny Katz til þess að hafa uppi á honum, vegna þess að eiginmaðurinn hafði áður nefnt hann á nafn í sambandi við traust. Í gang fer hröð atburðarás, þar sem einskis er svifist og ekki er gerður greinarmunur á sekum og saklausum í því efni.

Snemma kemur í ljós hver helsti vandinn er. Tengsl á réttum stöðum auðvelda að leysa gátuna en sambönd verða einnig til þess að gera fólki erfiðara fyrir. Hliðarspor eru geymd en ekki gleymd.

Skuggadrengur er ágætis afþreying og fljótlesin. Netið teygir sig víða en fljótlega er gefið til kynna hvar skórinn kreppir og eftir það er þetta ekki spurning um hverjir eiga helst hlut að máli heldur hvernig eigi að leysa málið.

Samfara framgangi við lausn gátunnar lýsir Carl-Johan Vallgren helstu persónum vel, tengingum og vandamálum sem þær eiga við að stríða. Fléttan er góð en samt er stundum farið frekar hratt yfir sögu.


Eldri fréttir Nýrri fréttir