„Hann er hlýr, hann er mennskur, hann hefur áhuga á manneskjunni,“ sagði Kolbrún Bergþórsdóttir í Kiljunni í gær; „áhuga á því hlutskipti að vera maður.“ Og þá var hún að tala um Jón Kalman Stefánsson. Hún sagði að í nýju skáldsögunni hans, Fiskarnir hafa enga fætur, væru gífurlega fallegar lýsingar á móðurmissi … og að hann væri pólitískari en oft áður. „Jááá, kvótakerfið fær skemmtilega á baukinn,“ samsinnti Sigurður Valgeirsson og benti á að staða kvenna væri einn af stóru þráðunum í bókinni.
Kolbrún sagði að þríleikurinn hans Jóns Kalman – Himnaríki og helvíti, Harmur englanna, Hjarta mannsins – væri með því besta sem hefði verið skrifað hér á landi síðustu áratugina – en þau voru öll sammála um að nýja skáldsagan væri verðugt framhald af því stórvirki.
Þau hrósuðu meðal annars skemmtilegheitunum í bókinni: “Hann lýsir hlutskipti lúðans í frystihúsinu af mikilli reynslu,“ sagði Sigurður Valgeirsson, sem kvaðst tala þar af mikilli reynslu. Það má með sanni segja að þau Kolbrún, Sigurður og Egill hafi verið himinlifandi með nýjustu skáldsögu Jóns Kalman í Kiljunni í gær.
Ferfalt húrra!