Hjónin við hliðina eftir Shari Lapena kom út vorið 2016 í Bretlandi og rauk strax upp metsölulistanana, enda hefur hún af mörgum verið kölluð glæpasaga ársins. Nú er hún komin út í þýðingu Ingunnar Snædal. Lífið leikur við Anne og Marco; samband þeirra er kærleiksríkt, þau eru vel stæð, njóta velgengni í starfi og eiga nýfædda, heilbrigða dóttur. En kvöld eitt fara þau í matarboð til hjónanna við hliðina, sem líka eru vel stæð velgengnishjón, og á meðan er glæpur framinn. Þegar rannsókn hans hefst fellur samstundis grunur á þau öll og málið vindur upp á sig. Í ljós kemur allir hafa eitthvað að fela, enginn og ekkert er sem sýnist og sannleikurinn er flóknari en nokkurn gat grunað.
Hjónin við hliðina er sálfræðileg glæpasaga í fremstu röð. Shari Lapena heldur lesandanum í heljargreipum frá fyrstu síðu með snilldarlegri fléttu sem kemur sífellt á óvart, allt til loka. Þetta er taugatrekkjandi fjölskyldusaga um svik, ástríður, tvöfeldni og óheilindi.