Út er komin hjá Veröld í kilju spennusagan Náttblinda eftir Ragnar Jónasson. Lögreglumaður á Siglufirði er skotinn með haglabyssu af stuttu færi um miðja nótt. Ung kona flýr þangað norður undan ofbeldisfullum sambýlismanni. Og sjúklingur er lagður inn á geðdeild í Reykjavík gegn vilja sínum. Þessir þræðir fléttast saman í magnaða spennusögu þar sem ræturnar liggja í átakanlegum veruleika undir fáguðu yfirborðinu.
Náttblinda kom fyrst út árið 2014 og hefur útgáfurétturinn verið seldur til fjölda landa. Bókin hlaut frábæra dóma í Bretlandi og hafa fjölmiðlar jafnt sem frægir sakamálahöfundar hlaðið bókina lofi. Bókin hlaut hin virtu Mörda verðlaun sem besta þýdda glæpasagan í Bretlandi 2015 og náði toppsætinu á metsölulista Amazon.
„Hér skapar Ragnar andrúmsloft innilokunar og beitir snilldarlegum sjónhverfingum.“ Guardian
„Bækur Ragnars hafa blásið nýju lífi í norrænu glæpasöguna.“ Sunday Express
„Sagan greip mig föstum tökum, en jafnvel enn betra er að sögupersónurnar eru aldrei eingöngu peð í fléttunni.“ Ian Rankin
„Breskir aðdáendur glæpasagna þekkja tvo frábæra íslenska rithöfunda, Arnald Indriðason og Yrsu Sigurðardóttur. Hér kemur sá þriðji: Ragnar Jónasson.“ The Times
Náttblinda er 249 blaðsíður að lengd. Um kápuhönnun sá kid-ethic.com og Eyjólfur Jónsson sá um umbrot. Bókin er prentuð hjá Nørhaven, Danmörku.