Heldur vel í lesandann – Allt eða ekkert

Fréttir

Heldur vel í lesandann – Allt eða ekkert

Bjarti barst bókadómur.

Katrín Gunnarsdóttir er bóksali í Eymundsson Austurstræti. Hún las Allt eða ekkert eftir Nicolu Yoon og leyfði okkur að birta gagnrýni sína.

Madeline er átján ára „loftbólubarn“ – hún hefur verið innilokuð á heimili sínu frá því hún var ungabarn vegna þess að hún er með sjaldgæfan ónæmiskerfissjúkdóm sem veldur því að hún getur fengið alvarleg ofnæmisviðbrögð við bókstaflega öllu. Hún býr ein með mömmu sinni sem er læknir, en pabbi hennar og bróðir létust í bílslysi þegar hún var fimm mánaða gömul.
Dag einn flytur Oliver, kallaður Olly, inn í næsta hús. Þegar þau kynnast (í gegnum gluggann og internetið) verða þau fljótt ástfangin hvort af öðru. Hjúkrunarkonan sem hugsar um Madeline á daginn hjálpar þeim að hittast og hvetur hana til að lifa lífinu. Madeline er í fyrsta skipti að upplifa svo margt – í fyrsta skipti að verða skotin og að finna allar tilfinningarnar sem fylgja því, og hún lýsir því á áhugaverðan hátt, öðruvísi en hinar þúsund ungmennaástarsögurnar sem segja frá fyrstu ástinni. Lesandinn þekkir að öllum líkindum tilfinningarnar, en sjónarhornið er nýtt og spennandi.

Þessi bók er fyrst og fremst ástarsaga. Hún hefur allt sem er nauðsynlegt í ástarsögum: ómögulegt ástarsamband, óstöðvandi hrifningu, einlægar ástarjátningar og þar fram eftir götunum. Aldur aðalsöguhetjanna gerir þessa ástarsögu að ungmennabók, en eldri lesendur geta líka haft gaman af henni. Bókin er fljótlesin og söguþráðurinn heldur vel í lesandann. Skemmtilegar teikningar og handskrifaðar glósur brjóta upp textann og eiga svolítinn þátt í því hversu fljótlesin bókin er. Mæli með henni fyrir fólk (ekki bara ungmenni) 13 ára og uppúr, sem hefur gaman af ástarsögum og „feel-good“ sögum.


Eldri fréttir Nýrri fréttir