Allt eða ekkert slær í gegn

Fréttir

Allt eða ekkert slær í gegn

Aftur barst Bjarti góður dómur lesanda.
Eyrún Ósk Jónsdóttir, rithöfundur og leikstjóri las Allt eða ekkert eftir Nicolu Yoon.

Ég missti af strætóstoppistöðinni því ég gleymdi að líta upp úr bókinni sem ég var að lesa, Allt eða ekkert eftir Nicolu Yoon og þurfti að hlaupa móð og másandi til baka. Þetta er hið svokallaða lúxusvandamál, þegar maður dettur svo algjörlega inn í bók að fátt annað kemst að.

Nicolu Yoon tekst að flétta heimspekilegum vangaveltum um lífið og tilveruna inn í spennandi ástarsögu án þess að hún verði tilgerðarleg. Ferskur og nýstárlegur stíll hjálpar þar mikið. Hún blandar saman fyrstu persónu frásögn, smáskilaboða-samskiptum, tölvupóstum, dagbókarbrotum, hugleiðingum, teikningum, óskalistum, læknaskýrslum og fleira til þess að segja söguna frá mismunandi sjónarhornum.

Bókin fjallar um Madeline sem hefur ekki farið út úr húsi í 17 ár af því að hún er með ofnæmi fyrir veröldinni. Hún er ný orðin 18 ára og þráin eftir heiminum sem hún er að missa af blundar undir yfirborðinu. Þegar hún kynnist óvænt Olly, drengnum í næsta húsi, verður hún yfir sig ástfangin og áttar sig á að hið verndaða líf sem hún hefur lifað er ekki nóg fyrir hana lengur. Þó að staða Madeline sé afar óvenjuleg og hún sé haldin mjög sjaldgæfum sjúkdómi ættu þær tilfinningar sem berjast í brjósti hennar að vera vel kunnar öllum þeim sem gengið hafa í gegnum unglingsárin. Þegar maður er fyrst að átta sig á því hversu mikið heimurinn hefur upp á að bjóða og maður ætlar að gleypa hann í sig allan í einu af ótta við að missa af einhverju. Allt eða ekkert fjallar um þessar tilfinningar af mikilli næmni. Yoon minnir okkur á að ástin er allt, það eina sem skiptir máli. En líkt og hjá Rómeó og Júlíu, Ísold og Tristan og Heath Cliff og Catherine er hún ekki bara falleg og stórbrotin heldur einnig hættuleg, jafnvel bannvæn.
Er ástin áhættunnar virð? Myndum við sjálf fórna öllu fyrir andartak með þeim sem við elskum?

Ég mæli eindregið með Allt eða ekkert fyrir þá sem vilja velta þessum spurningum fyrir sér.

Eyrún Ósk Jónsdóttir
Rithöfundur og leikstjóri


Eldri fréttir Nýrri fréttir