Heimurinn sleginn Snjóblindu

Fréttir

Heimurinn sleginn Snjóblindu

Út er komin hjá Veröld ný útgáfa af Snjóblindu eftir Ragnar Jónasson

Á undanförnum mánuðum hefur spennusagan Snjóblinda eftir Ragnar Jónasson farið mikla sigurför um heiminn. Bókin kom út í Bretlandi vorið 2015 og náði efsta sæti á metsölulista Amazon þar í landi og í Ástralíu, fyrst íslenskra skáldsagna.

Stórblaðið Independent valdi Snjóblindu sem eina af átta athyglisverðustu glæpasögum ársins. Í umfjöllun um bókina í The Times á dögunum kom fram að breskir unnendur glæpasagna þekktu tvo frábæra íslenska höfunda, Arnald og Yrsu. „Hér kemur sá þriðji: Ragnar Jónasson.“

Rétturinn á Snjóblindu hefur nú verið seldur til Bandaríkjanna, Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og Póllands, Japans, Suður-Kóreu og Armeníu, fyrir utan gjörvallt breska samveldið. Samanlagt hefur því tæplega helmingur jarðarbúa eða þrír milljarðar manna möguleika á að lesa bókina – og þeim fer sífellt fjölgandi.

Snjóblinda hefur verið uppseld og ófáanleg á Íslandi um langa hríð en er nú endurútgefin í tilefni af hinni miklu velgengni ytra.

„Bækur Ragnars hafa blásið nýju lífi í norrænu glæpasöguna.“
Sunday Express

„Í Snjóblindu birtast heillandi leiftur af myrkum og hrikalega ógnvekjandi sviðum mannlífsins.“
Independent

Snjóblinda er 290 blaðsíður að lengd. Um kápuhönnun sá kid-ethic.com. Bókin er prentuð í Odda.


Eldri fréttir Nýrri fréttir