Gleymdu stúlkurnar fá 4 stjörnur í Mogga

Fréttir

Gleymdu stúlkurnar fá 4 stjörnur í Mogga

Litið framhjá glæpum

Gleymdu stúlkurnar ****-

Eftir Söru Blædel. Árni Óskarsson íslenskaði. Kilja. 268 bls. Bjartur 2015.
Stöðugar fréttir berast af illri meðferð barna og unglinga víða um heim og ljóst er að „Breiðavíkurbörnin“ leynast víða. Sara Blædel, einn helsti spennusagnahöfundur Dana, gerir þetta vandamál að yrkisefni sínu í glæpasögunni Gleymdu stúlkurnar og tekst vel upp.

Louise Rick, faglegur stjórnandi sérstaks mannshvarfahóps, er í aðalhlutverki, rétt eins og í fyrri bókum Söru Blædel, en í nýju starfi að þessu sinni. Líkfundur leiðir til frekari rannsókna, eitt leiðir af öðru og áður en yfir lýkur hafa Louise og samstarfsmenn hennar svipt hulunni af viðbjóðslegum glæpum.

Þegar höfundur kynnti bókina hérlendis kom fram í viðtali við Morgunblaðið að hún ólst upp í smábæ í nágrenni við stofnun fyrir misþroska ungmenni og fannst þá ekkert óeðlilegt við meðferðina á börnunum. Þegar hún hafi rannsakað málið hafi annað komið í ljós. Stofnuninni og öðrum slíkum hafi síðan verið lokað, en það séu ekki svo mörg ár síðan. Með öðrum orðum byggir Sara Blædel söguna á sannsögulegum atburðum í lífi gleymdu barnanna í Danmörku.

Sagan er átakanleg. Hún lýsir vel hvernig fólk í valdastöðum misnotar vald sitt og hvernig ofbeldið kemur niður á þeim sem síst skyldi. Þöggunin er algjör.

En sagan lýsir líka sálarstríði helstu sögupersónunnar, skapvonsku og bráðlæti, fjölskyldulífi og tilhugalífi. Atburðarásin vekur spurningar, eins og til dæmis hvort menn hafi ekkert lært af reynslunni, en um það verða lesendur að dæma.

 

Morgunblaðið, 1. júní 2015.


Eldri fréttir Nýrri fréttir