Blátt blóð fær fjórar stjörnur í Morgunblaðinu

Fréttir

Blátt blóð fær fjórar stjörnur í Morgunblaðinu

Einar Falur Ingólfsson gefur Bláu blóði eftir Oddnýju Eiri 4 stjörnur í Mogganum í dag. Gagnrýnina má lesa hér:

Þrá eftir kátu sæði – og barni

Blátt blóð
Undirtitill þessarar athyglisverðu esseyju Oddnýjar Eirar er »Í leit að kátu sæði«. Og höfundur útskýrir strax í byrjun, í kafla sem nefnist »Ég reyndi«, hvert umfjöllunarefnið er:

Ég ímynda mér að á dánarbeðinum, þegar eftirsjáin hrjáir geð, þá sé fróun í að rifja upp að maður hafi reynt allt.

Reynt hvað? Að eignast barn.

En af hverju að eignast barn? Ég veit það ekki. Finn bara þrá í brjósti.

Ég reyndi kannski ekki allt, kannski of lítið. Kannski of mikið… (7)

Höfundurinn gengst strax við því að hún viti ekki af hverju þráin stafar en lesandinn fær að kynnast því í opinskárri frásögninni hvernig þörfin sífellt eykst, eftir því sem eggjunum fækkar, að finna líf kvikna í kviðnum og að öðlast þá reynslu að ganga með og fæða barn.

Oddný Eir er einn okkar athyglisverðustu höfunda í dag og hefur á undanförnum árum skrifað og gefið út persónuleg verk, þar sem hún iðulega fetar sig eftir illskilgreinanlegum mörkum sjálfsævisögu, dagbókar, heimspeki og skáldskapar.Ástarmeistarinn, hennar hefðbundnasta skáldsaga til þessa, kom út í fyrra, en forvitnilegt er að sjá hvernig þessi nýja esseyja,Blátt blóð, tengist henni á ýmsar hátt, í umfjöllunarefni, hugmyndum og afstöðu. Það sýnir enn og aftur hve höfundarverk hennar er allt samanreyrt.

Þetta er afskaplega heiðarleg frásögn um ástir, sambönd og slit sambanda, þar sem reynt er á þanþol ástarinnar og reynt á líf án frjóvgunar, þar sem sú þörf verður að sívaxandi spennu í sjálfum kjarna lífsins og tilverunnar að fá að eignast barn. Við lestur á Bændablaðinu einmana heima eitt kvöld les hún til að mynda auglýsingu um þreskivél og »fékk þá snilldarhugmynd að auglýsa eftir nýju fersku sæði beint frá býli í blaðinu. Hvernig ætti ég að orða auglýsinguna? Einstæð og ábyrg kona auglýsir eftir kátu sæði…« (76)

Oddný segist ekki hafa reynt til einskis ef hún nær að segja sögu af tilrauninni, þar sem reynt er að opna punga, bjarga indjánum frá útrýmingu og fá jafnvel gefins sæði hjá ókunnugum manni. Allt kemur til greina á leiðinni að markmiðinu og frásögnin af því er hrífandi, ljóðræn, opinská og afskaplega vel mótuð. Þetta er yndislesning um grafalvarlegt og knýjandi málefni; umfjöllun um kjarna tilverunnar.

Óhætt er að þakka forlaginu fyrir að gefa esseyju Oddnýjar Eirar svo fallega út, í búningi hönnuðarins Elin Mejergren þar sem letur og mónókróm-heilsíður eru kóngablá í anda titils verksins. Það eina sem stingur í augu er að í letrinu sem notað er tengjast stafirnir s og t með tilgerðarlegri lykkju; kannski á það flúr að minna á hala sæðisfrumu, hvað veit þessi karl sem skrifar, en hvað sem því líður þá er óhætt að hvetja fólk til að lesa þessi forvitnilegu og ástríðufullu skrif um meðgönguþrána.

Og í vor, skömmu eftir útgáfu bókarinnar, bárust fregnir af því að draumur höfundar hefði ræst, eftir alla þá baráttu og þá drauma sem greint er frá íBláu blóði. Oddný Eir fann sæði sem gerði sitt gagn; hún er orðin móðir. Draumurinn rættist.


Eldri fréttir Nýrri fréttir