* * * * fyrir Randalín og Munda

Fréttir

* * * * fyrir Randalín og Munda

„Ævintýralegur hversdagur,“ er yfirskrift fjögurra stjörnu dóms um Randalín og Munda í Leynilundi, í Morgunblaði dagsins. Silja Björk Huldudóttir segir meðal annars: „Ævintýri Randalínar og Munda eru hversdagleg, en Þórdísi Gísladóttur tekst listavel að gæða þau lífi og gera spennandi aflestrar.“ Sjá dóminn í heild sinni hér fyrir neðan.

 

Ævintýralegur hversdagur

Randalín og Mundi í Leynilundi

* * * *

Texti: Þórdís Gísladóttir.

Myndskreytingar: Þórarinn M. Baldursson.

Bjartur 2013. 92 bls.

Randalín og Mundi í Leynilundi er sjálfstætt framhald bókarinnar Randalín og Mundi sem út kom í fyrra og hlaut góðar viðtökur enda skemmtilegar sögupersónur á ferðinni. Hér bregða vinirnir sér út úr borginni í nokkurra daga heimsókn til Þrastar og Adams meðan Konráð, pabbi Randalínar, skreppur í helgarferð til London ásamt Hannesi kærastanum sínum. Í sveitinni fá þau tækifæri til að klifra í kaðalstiga, bjarga fuglum sem fljúga niður um strompinn, fara á sveitamarkað og prófa útisturtu auk þess sem þau kynnast forvitnilegu fólki í sveitinni eins og t.d. einstökum tvíburasystrum og ómannblendnum fuglafræðingi. Ævintýri Randalínar og Munda eru hversdagleg, en Þórdísi Gísladóttur tekst listavel að gæða þau lífi og gera spennandi aflestrar. Spennan magnast svo um munar þegar vinirnir rekast á strokufanga sem og þegar þau hafa áhyggjur af nábítnum sem þau halda að sé hræðilega grimmt dýr. Teikningar Þórarins M. Baldurssonar eru skemmtilegar og þjóna sögunni vel.


Eldri fréttir Nýrri fréttir