CERCLE DE L’UNION INTERALLIÉE heita samtök franskra greifa og fyrirmenna, sem voru stofnuð árið 1917. Nú eru um 3.300 meðlimir í samtökunum, menntamenn, stjórnmálamenn, viðskiptajöfrar og aðrir frammámenn í frönsku samfélagi. Samtökin eru til húsa við St. Honoré-götu, eina fínustu götu í París, þar sem tískuhúsin standa í röðum.
Þessi samtök veita árleg bókmenntaverðlaun, bókum sem eru annað hvort skrifaðar á frönsku eða þýddar á frönsku. Og í vikunni sem leið voru 2 höfundar verðlaunaðir: Hinn franski Olivier Bleys fyrir bókina Concerto pour la main morte (útg. Albin Michel). Og Bergsveinn Birgisson fyrir Svar við bréfi Helgu (La Lettre a Helga, í þýðingu Catherine Eyjolfson, útgefandi Zulma).
Það þykir mikill heiður að hljóta verðlaun þessara virtu samtaka, auk þess sem höfundi eru veitt peningaverðlaun. Svona upphefð sá hann Bjarni bóndi ekki fyrir.