Sérstök forsala verður á takmörkuðum eintakafjölda glæpasögunnar Dimmu eftir Ragnar Jónasson í Eymundsson Austurstræti á morgun, þriðjudaginn 27. nóvember. Sala bókarinnar hefst þar kl. 17.00. Dimma er væntanleg úr prentun á miðvikudag og er formleg útgáfa á fimmtudag. Vegna mikillar eftirspurnar mun Prentsmiðjan Oddi hins vegar afgreiða 250 eintök síðdegis á þriðjudag og verða þær sendar beint í Eymundsson Austurstræti. Þá verða gestum og gangandi boðnar léttar veitingar í tilefni þess að fyrsta útgáfa Dimmu er að koma úr prentverkinu.
Ragnar Jónasson hefur verið á miklu flugi undanfarið ár. Á bókamessunni í Frankfurt í fyrra var gengið frá samningi um útgáfu á tveimur bókum hans á ensku. Og í á bókamessunni í ár var samið um enska útgáfu á þremur af bókum hans í viðbót.
Snjóblinda hafði áður komið út á þýsku en var gefin út á liðnu vori í Bretlandi þar sem hún náði efsta sæti á metsölulista Amazon Kindle, fyrst íslenskra skáldsagna. Snjóblinda hefur jafnframt verið seld til Bandaríkjanna og Ítalíu og komið út í Póllandi. Viðræður standa nú yfir við fleiri erlend bókaforlög um útgáfuréttinn á bókum Ragnars.
Dimma er fyrsta glæpasaga Ragnars í nýrri seríu. Lögreglufulltrúinn Hulda rannsakar síðasta sakamálið sitt áður en henni er gert að hætta störfum fyrir aldurs sakir, 64 ára gömul. Ung kona, hælisleitandi frá Rússlandi, finnst látin á Vatnsleysuströnd og bendir ýmislegt til þess að hún hafi verið myrt. Engum er hægt að treysta og enginn segir allan sannleikann. Hörmulegir atburðir úr fortíð Huldu sækja á hana og hún gerir afdrifarík mistök við rannsóknina sem hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar.