Nýtt leikrit eftir Auði Övu Ólafsdóttur var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Fulltrúi Bjarts var á staðnum, skemmti sér konunglega og vottar góðar viðtökur. Leikkonurnar fjórar fara á kostum, verkið er skemmtilegt og ýtir við áhorfandanum og dansinn er unaðslegur. Auðvitað ætti fólk almennt að dansa meira og tala minna.
Ekki hætta að anda fjallar um fjórar konur og fjarstaddan mann. Leikkonurnar Elma Lísa, María Heba, Tinna og Katla Margrét fara frábærlega með hlutverkin fjögur, en konurnar eiga það sameiginlegt að hafa þekkt Hákon, ljóshærðan mann með krullur, ekki sérlega hávaxinn. Leikstjóri er Stefán Jónsson, Árni Rúnar Hlöðversson gerir tónlist og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir sér um danshreyfingar. Það er leikhópurinn háaloftið sem setur upp í Borgarleikhúsinu.