Draugagangur hjá Bjarti: „Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds.“

Draugagangur hjá Bjarti: „Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds.“

Starfsfólk bókaútgáfunnar Bjarts er slegið yfir ókennilegum draugagangi í tengslum við útgáfu sænsku metsölubókarinnar Fórnarmýrin. Sagan fjallar um unga konu sem kemur á heimaslóðir að rannsaka mýrlendi. Þar voru guðunum færðar mannfórnir fyrr á tíð og sagan segir að enn þann dag í dag hverfi menn sporlaust í þessu votlendi. Nú virðist sem höfundurinn sjálfur hafi horfið ofan í sína eigin fórnarmýri.

Þegar kiljan kom úr prentun reyndist nafn höfundarins, Susanne Jansson, nefnilega vanta framan á kápuna. Strax var farið að kanna málið og reyndist rétt skjal með nafni höfundarins sannarlega hafa verið sent í prentun og það sem meira var: þetta sama rétta skjal hafði farið inn í prentvélina. Engu að síður vantaði nafnið framan á kápuna þegar brettin voru afhjúpuð í dreifingarmiðstöð Bjarts.

Á milli þess sem starfsfólk útgáfunnar veltir fyrir sér þessum dularfullu atburðum og skýringum á þeim líma þau nafn Susanne Jansson framan á kápuna og hugsa líklega eins og sænski gagnrýnandinn sem skrifaði: „Fórnarmýrin er spennandi, hrollvekjandi og ógnvekjandi ... mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds.“

Fórnarmýrin er núna á leið í verslanir en fæst líka með því að smella hér.


Eldri fréttir Nýrri fréttir