Dramatísk átök

Fréttir

Dramatísk átök

Út er komin hjá Veröld Steingrímur J – Frá Hruni og heim sem Björn Þór Sigbjörnsson hefur skráð

Steingrímur J. Sigfússon hefur um árabil verið í framlínu íslenskra stjórnmála og hafa fáir lent í viðlíka sviptivindum. Í þessari áhugaverðu og opinskáu bók ræðir Steingrímur við Björn Þór Sigbjörnsson um eitt erfiðasta verkefni íslenskrar stjórnmálasögu: að vera í forystu við að reisa landið úr rústum Hrunsins.

Í bókinni sviptir hann hulunni af dramatískum átökum sem fóru fram á bak við tjöldin, jafnt við samherja og andstæðinga, og veitir lesendum einstaka innsýn í heim íslenskra stjórnmála. Hann ræðir meðal annars um tildrög þess að stjórn Samfylkingarinnar og VG tók við í febrúar 2009, segir frá erfiðri – og á köflum sársaukafullri – uppbyggingarvinnu, fjallar um þungbærar deilur við samherja og gerir upp hin miklu hitamál þessara ára. Og hlífir hvorki sjálfum sér né öðrum. 

Björn Þór Sigbjörnsson á að baki langan feril sem fjölmiðlamaður og var annar höfundur stórvirkisins Ísland í aldanna rás 2001–2010.

Steingrímur J – Frá Hruni og heim er 288 blaðsíður að lengd. Eyjólfur Jónsson sá um umbrot og hönnun innsíðna, Jón Ásgeir hannaði kápuna. 

Bókin er prentuð í Odda.


Eldri fréttir Nýrri fréttir