Dauðaslóðin: * * * *

Fréttir

Dauðaslóðin: * * * *
Dauðaslóðin eftir Söru Blædel fékk aldeilis glimrandi fallegan dóm á hinum fagra 25ta febrúardegi, í Morgunblaði allra landsmanna. Dómurinn fer hér á eftir:
 
 
Í fyrra gaf Bjartur út glæpasöguna Gleymdu stúlkurnareftir Söru Blædel og Dauðaslóðin er sjálfstætt framhald þeirrar sögu. Fyrri mál eru áréttuð og lausir endar hnýttir.

Louise Rick, yfirmaður mannshvarfadeildar lögreglunnar í Kaupmannahöfn, fær það verkefni að leita að 15 ára gömlum pilti á æskuslóðum sínum á Sjálandi. Hvarfið tengist ákveðnum gjörðum, málið vindur upp á sig og fljótlega verður ljóst að ekki er allt sem sýnist, jafnt í rannsókninni sem og í einkamálum Louise Rick.

Sara Blædel hefur sýnt að hún er góður höfundur og hér heldur hún áfram á þekktri braut. Sagan er ekki aðeins vel skrifuð heldur er tekist á við ákveðið málefni og hulunni svipt af áratugalöngum leyndardómi.

Það orkar gjarnan tvímælis að rifja upp atburði, sem greint hefur verið frá í fyrri bókum höfundar. Sara Blædel fetar svolítið þá braut en gerir það af fagmennsku og þessi endurtekning truflaði ekki lesturinn utan einu sinni.

Afmarkaður heimur tiltekins hóps karlmanna er einkum til umfjöllunar og það verður að segjast eins og er að Sara Blædel lýsir sérlega vel þeim viðbjóði sem þar viðgengst. Hún gefur engan afslátt og lesandi getur ekki annað en staldrað við og hreinlega spurt: Ætli svona lagað viðgangist einhvers staðar?

Að nokkru leyti er niðurstaðan fyrirsjáanleg nokkuð snemma og fyrir bragðið er spennan ekki sem slík söguna á enda en samt vill maður sjá hvernig hún endar og hættir ekki fyrr en hún er öll. Það hlýtur að vera einn helsti tilgangur höfundar og enn ein rósin í hnappagat Söru Blædel.

Sara Blædel blandar skemmtilega saman fornri trú og nútímanum. Titill bókarinnar, Dauðaslóðin, gefur enda margt til kynna. En dauðinn tekur á sig ýmsar myndir og þessi átakasaga er ekki aðeins um djöfullega framgöngu manna heldur einnig um fórnir, kærleika og ást.

Steinþór Guðbjartsson


Eldri fréttir Nýrri fréttir