Fjallkonan 17. júní 2013 var Selma Björnsdóttir og flutti hún ljóðið Íslands æviskeið eftir Ingunni Snædal. Ljóðið er birt hér með leyfi höfundar.
Íslands æviskeið
Ungbarnið Ísland
sem gjálfrar og syngur
steypir sér með tærum hlátri
niður mosagrænar hlíðar
Táningurinn Ísland
álappalegur en fullur af krafti
með rytjulegan gróður í vöngum
finnst hann fær í flestan sjó
Ástfangin kona með
seiðandi glampa í dökkum
augum sumartjarnar
vaggar þér í lyngmjúkum
faðmi sínum
Bláleitir risar vaka yfir okkur
varnarlausir með opinn faðminn
hvítfyssandi er hár þeirra
græn eru hjörtu þeirra
seint gróa sár þeirra
Bergmálar þjóðarsálin milli kletta
Saga lands og þjóðar
sem dregin er í gljúpa mold
rist með fjallsoddi í skýin
trömpuð með hófförum ofan í grænt gras
múruð inn í steypu og negld í sperrur
hlegin inn í endalausa vornótt
Í hundrað og einum tekur hipster í nefið
bóndinn fyrir norðan býður upp á latté
Hin aldna Íslands frú
ber skýjadún að hrukkóttum vanga
hvítar hærur á breiðum öxlum
hægur andardráttur haustkvöldsins
Brostin frostaugu
vetrartjarnar
Kófar gulli yfir veginn
í síðustu geislum sólarinnar
og svo
aftur vor
og hlæjandi í rigningunni
stendur lítið barn
í litríkum stígvélum