Út er komin glæpasagan Þorpið eftir Ragnar Jónasson. Una, ungur kennari úr Reykjavík, ræður sig til starfa á Skálum á Langanesi árið 1985. Íbúarnir eru tíu og nemendurnir aðeins tveir. Samfélagið er lokað og tekur henni með miklum fyrirvara – eins og allir hafi eitthvað að fela.
Óútskýrð dauðsföll vekja ugg, Unu finnst sér ógnað og á nóttunni er stundum eins og hún sé ekki ein í herberginu sínu ...
Ragnar Jónasson er einn fremsti spennusagnahöfundur þjóðarinnar. Bækur hans hafa komið út um allan heim og setið efst á metsölulistum. Hér sýnir hann allar sínar bestu hliðar í glæpasögu sem fær hárin til að rísa.
Þorpið er 318 blaðsíður að lengd. Ragnar Helgi Ólafsson hannaði bókarkápuna og Eyjólfur Jónsson sá um umbrot. Bókin er prentuð í Litháen.