„Sprengfull af hugmyndum, vísunum, samsvörunum og óvæntum brigðum, sett fram í írónískum stíl Steinunnar,“ skrifaði Ásdís Sigmundssonur um Gæðakonur Steinunnar Sigurðardóttur í Fréttablaði laugardagsins, og gaf fjórar stjörnur. Dóminn í heild sinni má lesa hér.
María Hólm, aðalpersóna nýjustu skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur Gæðakonur, er eldfjallafræðingur. Hún vill láta skilgreina sig sem slíkan og neitar að láta setja á sig aðra merkimiða. Persónan er líka eins og eldfjall sjálf. Heillandi en hrjúf á yfirborðinu og ómögulegt að skilja hana til hlítar. Þetta á eiginlega við um bókina í heild líka. Lesandinn skynjar og greinir vísbendingar sem höfundurinn setur fram en þegar hann reynir að festa þær niður sem vissu færast þær undan og öðrum mögulegum túlkunum og tengslum er velt upp. Þannig er aldrei alveg ljóst hvar og hvenær mun gjósa.
Meira að segja upphaf sögunnar er erfitt að negla niður – hvaða atburður er upphaf sögunnar? Aðalpersónan og sögumaðurinn María vill meina að það sé þegar hún hittir hina óræðu Gemmu í flugvél á leið til Parísar. Kaflinn um það heitir „Donnan í vélinni“, sem minnir óneitanlega á helgileiki miðalda þar sem María mey var “guðinn í vélinni“ (deus ex machina) sem kemur óvænt í lok leiksins og leysir úr flækju söguþráðarins. En eins og Steinunnar er von og vísa þá er snúið upp á hefðina og donnan kemur í upphafi sögunnar og flækir líf vísindamannsins Maríu en heggur ekki á hnútinn. Rétt eins og „guðinn“ er yfirleitt ekki eðlileg eða rökrétt afleiðing söguþráðarins er Gemma ekkert endilega rökrétt upphaf atburðarásarinnar. Í raun er hún ekki af sama (bókmennta)heimi og aðrar persónur bókarinnar. Hún er innrás annars konar bókmenntagreinar inn í heim hinnar (nokkuð) dæmigerðu sögupersónu Steinunnar Sigurðardóttur: menntuð íslensk kona sem lifir í eftirsjá eftir ást sem var. Ást sem kemur í ljós að stenst ekki væntingar. Einnig kemur betur og betur í ljós að Gemma er ekki öll þar sem hún er séð. Henni er lýst sem ómennskri, t.d. sem listaverki og höfuðskepnu. Hún er tengd goðsögum, kyn hennar er órætt, sem og fortíð, og hún virðist frekar vera persóna í reyfara eða fantasíu. Þannig er það sem hrindir sögunni af stað órætt og vekur upp endalausar hugmyndir og tengingar.
En rétt eins og í svo mörgum bókum Steinunnar er ástin eitt aðalumfjöllunarefnið. Heitasta og fallegasta ástin í bókinni er vinátta Maríu við vinkonuna Rögnu og samstarfsmanninn Bárð. Samband Maríu við þau er fallegt og náið og þar ríkir traust, heiðarleiki og jafnræði. Ástarsambönd Maríu, hvort heldur sem er við karlmenn eða konur, eru hins vegar misheppnuð, full af eftirsjá, svikum og ójafnvægi. Það er kannski niðurstaða bókarinnar (ef einhver er) að „lífið er stríð, og það eina sem gildir er að gera sig að galdramanneskju sem finnur upp nýjar töfraformúlur til að lengja stundirnar milli stríðanna“ (180). Ragna og Bárður virðast vera stundirnar milli stríðanna en hin „rómantíska“ eða kynferðislega ást er átök, valdabarátta, svik og vonbrigði.
Gæðakonur er saga sem er sprengfull af hugmyndum, vísunum, samsvörunum og óvæntum brigðum, sett fram í írónískum stíl Steinunnar, sem leyfir lesanda aldrei að slaka en heldur honum á tánum þar til yfir lýkur.
Ásdís Sigmundsdóttir
Niðurstaða:
Áhugaverð bók sem ber sterk höfundareinkenni Steinunnar Sigurðardóttur, bæði í stíl og efni.
Fréttablaðið, laugardaginn 15. nóvember 2014